Flúrað Svanur festir verk á handlegg. Hann skipuleggur hátíðina sem hefst í dag og lýkur á sunnudag. Þeir sem vilja fá sér húðflúr geta það með einföldum hætti.
Flúrað Svanur festir verk á handlegg. Hann skipuleggur hátíðina sem hefst í dag og lýkur á sunnudag. Þeir sem vilja fá sér húðflúr geta það með einföldum hætti. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Húðflúrhátíðin Icelandictattooexpo verður sett í dag í Súlnasal á Hótel Sögu og stendur hún yfir til sunnudags. Um 60 húðflúrlistamenn taka þátt í hátíðinni og eru skipuleggjendur í skýjunum yfir fjöldanum.

Húðflúrhátíðin Icelandictattooexpo verður sett í dag í Súlnasal á Hótel Sögu og stendur hún yfir til sunnudags. Um 60 húðflúrlistamenn taka þátt í hátíðinni og eru skipuleggjendur í skýjunum yfir fjöldanum. „Listamennirnir eru alls staðar að úr heiminum. Það er einn sem kemur frá Samóaeyjum og aðrir frá Tahíti, Bandaríkjunum, Evrópu og flóran er mjög breið,“ segir Svanur Jónsson, eigandi Tattoo og Skart á Hverfisgötu en hann er einn af skipuleggjendum hátíðarinnar. „Stílarnir eru mjög margir í húðflúrum og þarna verðum við með þá flesta ef ekki alla. Meðal annars fjóra handstungustíla sem er mjög sjaldgæft á svona hátíðum,“ segir Svanur sem hefur stundað ráðstefnur í 9 ár, víða um heim en aðallega í Skandinavíu. Hann hefur verið dómari síðastliðin fimm ár á móti sem er haldið í Stokkhólmi og er það næststærsta í Skandinavíu.

„Það er mikil dagskrá í Súlnasal alla helgina. Wally and the gimp verða á svæðinu og rapparinn Alexander Jarl auk þess sem keppt verður í þeim flokkum sem hægt er að keppa í. Þetta verður ein stór hátíð og mikil gleði.“

Listamennirnir sem koma á hátíðina eru m.a. fjölmargar konur, eru þar á meðal Ellen Westholm frá Svíþjóð en hún hefur unnið til fjölda verðlauna. „Hún er mikil stjarna og landa hennar Johanna Thor frá Bluebird tattoo er það líka. Hún hefur meðal annars verið valin húðflúrlistamaður Svíþjóðar þrisvar sinnum sem er met. Konurnar eru skratti góðar í þessu og kynjahlutföllin á þessari hátíð eru í lagi.“ Svanur segir að trúlega sé of seint að panta tíma hjá þeim stærstu enda hátíðin að hefjast. Best sé að mæta á hátíðina, finna sér listamann og athuga hvort hann eigi lausan tíma. „Það er fullseint að panta tíma en um að gera að koma og njóta þess sem fyrir augun ber. Það er gaman að horfa og á klukkutíma fresti er eitthvað að gerast uppi á sviðinu.“

benedikt@mbl.is