Rithöfundurinn Þorgerður er afar stolt af frumburði sínum í ritheimum en hún er hjúkrunarfræðingur og vinnur hjá Landspítalanum. Hún borðar yfirleitt hreint skyr að eigin sögn og setur það sem hún vill út á diskinn.
Rithöfundurinn Þorgerður er afar stolt af frumburði sínum í ritheimum en hún er hjúkrunarfræðingur og vinnur hjá Landspítalanum. Hún borðar yfirleitt hreint skyr að eigin sögn og setur það sem hún vill út á diskinn. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenskur matur og matarvenjur hafa oftar en ekki orð á sér fyrir að lykta illa og smakkast hræðilega. Þorgerður Ragnarsdóttir hjúkrunarfræðingur ákvað að nóg væri komið og setti saman lítið kver um sögu skyrs.

Íslenskur matur og matarvenjur hafa oftar en ekki orð á sér fyrir að lykta illa og smakkast hræðilega. Þorgerður Ragnarsdóttir hjúkrunarfræðingur ákvað að nóg væri komið og setti saman lítið kver um sögu skyrs. Bókin er á fjórum tungumálum og segir höfundurinn að ef bókin seljist eins og heitar lummur eða ískalt skyr, þá verði jafnvel ráðist í annað verk um annars konar matvæli.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Þorgerður Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum, hefur gefið út 36 blaðsíðna kver um skyr og er bókin litla nú fáanleg í Eymundsson á fjórum tungumálum. Þrátt fyrir fáar blaðsíður er bókin full af fróðleik og eins og skyrið þá þarf ekki mikið til að metta.

„Ég var að velta fyrir mér hvernig upplýsingar um íslenskan mat og íslenskar matarvenjur eru matreiddar ofan í ferðamenn. Mér finnst nefnilega íslenskur matur oft kynntur sem hálfgerður hrellimatur sem sé frekar ólystugt að leggja sér til munns,“ segir hún.

Þorgerður var í nokkurra mánaða hléi milli starfa og gafst þá tóm til að leggja frekari drög að verkefninu. Skyrið var snemma hrært í hugmyndabankanum enda búið að vera samofið íslensku þjóðinni nánast frá upphafi. Enda segir hún í kynningu á bókinni að hún hafi heillast ung að árum af þúsund ára skyrleifum í krukkum á Þjóðminjasafninu.

„Það var svolítið augljóst að kynna skyr sem íslenskan mat á jákvæðan hátt. Skyr tvinnast snemma inn í menningu okkar og hefur fylgt okkur frá upphafi byggðar. Það eru til skemmtilegar sögur um skyrið. Ég hefði auðveldlega geta skrifað lengri bók en setti mér ákveðnar reglur.

Bókin er hugsuð fyrir ferðamenn og útlendinga og ég miða við mína eigin hegðun þegar ég er í útlöndum. Þar skoða ég minjagripi sem helst passa í veski eða vasa og eru léttir en samt svolítið skemmtilegir og forvitnilegir. Út frá þessu vann ég bókina.“

Persónuleg forsíða

Bókin er 36 síður og skartar fallegri forsíðumynd sem hefur persónulegt gildi fyrir Þorgerði en hún tók hana sjálf.

„Ég er hjúkrunarfræðingur og reyndar fjölmiðlafræðingur líka og búin að fást við ýmislegt. Amma óf brekánið og hafði ofan á rúminu sínu, askurinn er frá tengdamóður minni og spónninn er frá afa mágs míns. Ég fór marga hringi með forsíðumyndina og gerði ýmsar tilraunir en þetta varð niðurstaðan,“ segir hún.

Vinsældir skyrs hafa lítið minnkað þrátt fyrir fornan sið. Mjólkursamsalan er í útrás með skyrið og Arla reyndi að stela íslenska skyrinu við litlar vinsældir hér á Íslandi. MS sá þó ekki ljósið í þessu verkefni Þorgerðar.

„Ég þurfti aðeins að hugsa mig um hvort ég ætti að kýla á að gera þetta án stuðnings frá einhverju stærra batteríi eins og MS eða þekktu forlagi. Tíminn á eftir að leiða í ljós hvort það var rétt ákvörðun að gera það.“

Þorgerður segir að gangi bókin vel þá geti vel verið að hún taki aðra rispu um annars konar matvæli. „Það er þess virði að gera tilraun um skyrið. Fyrst var ég að spá í að gera seríu en niðurstaðan var að gera tilraun og ef þetta gengur þá kannski tek ég kannski eitthvað annað fyrir.“

„Gaman að búa eitthvað til“

Bókin er prentuð í Slóveníu og er Þorgerður sátt við þessa frumraun sína í útgáfustarfsemi. „Vissulega fylgir þessu ævintýri spenna og kvíði fyrir hvort þetta gangi upp. Það er gaman að búa eitthvað til og vonandi selst bókin eins og heitar lummur, já eða skyr. Vonandi selst hún eins og gott íslenskt skyr,“ segir hún og hlær.