Anny Irene Þorvaldsson fæddist 6. ágúst 1934. Hún lést 27. júlí 2016.

Útför Annyjar fór fram 27. ágúst 2016.

Elsku tengdamamma mín.

Núna er komin kveðjustund og ég sit hér og er að hugsa um þessar mörgu góðu stundir sem við höfum átt saman.

Það var sönn gleði að fá að kynnast þér, þú varst alltaf til staðar þegar ég þurfti á þér að halda og ég til staðar fyrir þig, þegar þú þurftir.

Ég man fyrir mörgum árum þegar ég giftist yngstu dóttur þinni, að þú sagðir við mig: „velkominn í fjölskylduna, það kostar einn kassa af bjór að komast inn, en tvo að komast út úr fjölskyldunni aftur“. Þessi orð höfum við allir tengdasynirnir fengið að heyra, og við hlógum oft að þessum orðum. Þú varst svo létt kona, með fullt af skemmtilegum uppákomum, alltaf sú hressasta í veislunum, og þú varst mesta danskona sem ég hef kynnst, og við hin höfum sko lært að dansa með þér, því okkur var öllum boðið upp í dans með þér.

Allar þessar góðu minningar tek ég með mér og geymi í hjarta mínu, og ég ætla að kveðja þig með smá ljóði.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn.)

Hvíldu í friði og við eigum eftir að hittast þegar minn tími er kominn.

Ástarkveðja,

Þorgeir Snorrason.