Eftir að ég uppgötvaði tímaflakkið (eða eiginkonan kenndi mér á það) hafa möguleikarnir á að fylgjast með góðum framhaldsþáttum í sjónvarpi aukist til muna. Yfirleitt fór slíkt gláp ekki vel saman við óreglulegan vinnutíma íþróttafréttamannsins og þeir fóru flestir fyrir ofan minn garð eða neðan.
Einn þeirra þátta sem hafa fangað athygli mína er Næturvörðurinn á RÚV, spennuþáttaröð sem er byggð á samnefndri sögu John le Carré. Fimm þættir af átta eru búnir og sá sjötti er á dagskrá í kvöld. Spennan magnast. Sumir kvörtuðu yfir því að Ófærð væri langdregin og hlutirnir gerðust vissulega hægt á Siglufirði og Seyðisfirði en það sama má svo sannarlega segja um þessa sögu.
En það versta er að nú eru tvær vikur liðnar frá síðasta þætti. Þegar við ætluðum að sjá sjötta þátt á flakkinu seinnipart síðustu viku gripum við í tómt. Enginn sjötti þáttur kominn í safnið. Þá rifjaðist upp að það voru víst Eldhúsdagsumræður síðasta mánudagskvöld. Þættinum var bara frestað um viku.
Hvað er til ráða? Horfa aftur á fimmta þáttinn og svo á þann sjötta seinna í vikunni? Eða treysta á að fléttan rifjist upp eftir því sem á þáttinn í kvöld líður? Vesen!
Víðir Sigurðsson