Jóhann Ólafsson fæddist 3. október 1891 á Hallgilsstöðum hjá Möðruvöllum í Hörgárdal. Foreldrar hans voru Ólafur Jónsson (1858-1945) bóndi og barnakennari og Jórunn Jóhannsdóttir (1866-1898) húsfreyja, síðast á Kálfskinni á Ársskógsströnd.

Jóhann Ólafsson fæddist 3. október 1891 á Hallgilsstöðum hjá Möðruvöllum í Hörgárdal. Foreldrar hans voru Ólafur Jónsson (1858-1945) bóndi og barnakennari og Jórunn Jóhannsdóttir (1866-1898) húsfreyja, síðast á Kálfskinni á Ársskógsströnd.

Jóhann var ekki nema sjö ára þegar móðir hans lést og faðir hans brá búi og fór í vinnumennsku á ýmsum bæjum. Jóhann og eldri bróðir hans Arngrímur voru þá teknir í fóstur af ýmsum ættingjum móður þeirra. Við þetta varð skólaganga mjög erfið og atvinnuhorfur litlar. Jóhann stundaði sundkennslu í Svarfaðardal og verslunarstörf hjá móðurbróður sínum Jóhanni Jóhannssyni kaupmanni á Dalvík. Hann gekk í Verzlunarskóla Íslands árið 1914.

Árið 1916 stofnar hann fyrirtækið Jóh. Ólafsson & CO, sem verður 100 ára 14. október nk. Uppgangur verslunarrekstursins var hraður og árið 1918 er fyrirtækið orðið umboðsaðili fyrir General Motors-bifreiðar og leggur drjúgan skerf til vélvæðingar samgangna Íslands á landi. Fyrirtækið kynnir landsmönnum ýmis heimsþekkt vörumerki svo sem Gillette, Dunlop, Colgate og Remington.

Árið 1944 gerist Jóhann forstjóri Strætisvagna Reykjavíkur er bærinn kaupir þá af samnefndu hlutafélagi. Hann gerist einnig fyrsti forstjóri Innkaupastofnunar Reykjavíkur og mótar upphaf þeirrar stofnunar. Hann var bæjarfulltrúi 1934-1938, var í skólanefnd Verzlunarskóla Íslands, varaformaður Verslunarráðs Íslands 1937-1940, sat í sjó- og verslunardómi Reykjavíkur. Jóhann fór fyrstur Íslendinga kringum hnöttinn, tvisvar, 1931 og 1933, og kom fyrstur á beinum viðskiptum við Japan.

Kona Jóhanns var Margrét Valdimarsdóttir (1900-1996) frá Heimabæ í Hnífsdal og eignuðust þau fjögur börn: Ólafur (1932-2010), Jóhann (1935), Birgir (1936-2013) og Sólveig (1940-1978).

Jóhann lést 27. júní 1963.