Borgarbúar og aðrir gestir vinsælla viðburða innan borgarmarkanna hafa búið við það á undanförnum árum að borgaryfirvöld hafa haft þá að féþúfu.

Borgarbúar og aðrir gestir vinsælla viðburða innan borgarmarkanna hafa búið við það á undanförnum árum að borgaryfirvöld hafa haft þá að féþúfu. Nýjasta dæmið er af sjávarútvegssýningu í Laugardalshöllinni í liðinni viku þegar fjöldi sýningargesta var sektaður um 10.000 krónur fyrir að hafa ekki fundið bílastæði.

Borgaryfirvöld reka sjálf og leigja út Laugardalshöllina en vilja vegna fjárhagsóreiðu krækja í aukapening með þessum hætti í stað þess að tryggja gestum eðlilegan aðgang að bílastæðum.

Í samtali við Morgunblaðið vegna þessara sekta sagði framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs „eðlilegt að það sé farið í eftirlitsferðir inn í Laugardal og víðar þar sem vitað er af fólki.“

Það er með öðrum orðum ástæða til að senda starfsmenn í veiðiferðir í Laugardalinn þegar líkur eru á að vel veiðist vegna þess að borgin leigði út húsnæði undir stórviðburð án þess að tryggja aðgang að bílastæðum.

Þessi aðferð, auk stórfelldrar hækkunar sektargjalda, skilaði Bílastæðasjóði í fyrra 62% tekjuauka vegna stöðubrota. Og rekstrarniðurstaða Bílastæðasjóðs var nær þrefalt betri en áætlað hafði verið.

En þá má spyrja: Er einhver sanngirni í þessari framgöngu borgarinnar? Og líka: Er þetta líklegt til styðja við ráðstefnu- og sýningarhald í höfuðborginni?