Landssamtök lífeyrissjóða segja það almenningi í hag að lífeyrissjóðirnir haldi áfram að veita sjóðfélögum lán til fasteignkaupa og að fráleitt væri að fallast á hugmyndir Samtaka fjármálafyrirtækja um að Alþingi banni lánastarfsemi lífeyrissjóða.

Landssamtök lífeyrissjóða segja það almenningi í hag að lífeyrissjóðirnir haldi áfram að veita sjóðfélögum lán til fasteignkaupa og að fráleitt væri að fallast á hugmyndir Samtaka fjármálafyrirtækja um að Alþingi banni lánastarfsemi lífeyrissjóða. Þetta segir í tilkynningu sem Landssamtök lífeyrissjóða sendu frá sér á sunnudag.

ViðskiptaMogginn greindi frá því á fimmtudag að Samtök fjármálafyrirtækja legðu til að stjórnvöld girtu fyrir beinar lánveitingar lífeyrissjóða til einstaklinga og fyrirtækja. Var umsögn þess efnis send efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis vegna frumvarps sem þar er til skoðunar um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

„Fjármálafyrirtækjum gengur aðeins eitt til með þessari kröfu sinni og það er að sitja ein að þessum hluta lánamarkaðarins,“ segja Landssamtök lífeyrissjóða og bæta við að það fyrirkomulag sem Samtök fjármálafyrirtækja leggi til yrði dýrari og óhagkvæmari kostur en bein lánveiting lífeyrissjóðanna til sjóðfélaga. ai@mbl.is