Oddný Harðardóttir
Oddný Harðardóttir
Eftir Oddnýju Harðardóttur: "Samfylkingin ætlar að gera íslensku heilbrigðisþjónustuna þá bestu í heimi, því í huga jafnaðarmanna er velferð undirstaða góðs efnahags og samfélags."

Flest höfum við staðið frammi fyrir því að veikjast eða fylgja nákomnum í gegnum veikindi, þar sem reynir á. Áhyggjur og öryggisleysi, tekjumissir og streita einkenna langvarandi veikindi innan fjölskyldna. Þegar við stöndum frammi fyrir því verkefni að bæta heilbrigðisþjónustuna, þá eigum við hafa þessar aðstæður fólks í huga.

Fjárhagsáhyggjur og aukið vinnuálag á fjölskylduna er líklega það sem flestir óttast þegar þeir veikjast. Því eigum við að svara með gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu og með góðri umönnun sem léttir undir álag á fjölskylduna. Veikindi, slys, öldrun og barnsburður eru nefnilega ekki bara málefni einstaklinga, heldur eru líka fjölskyldna og samfélagsins alls.

Best í að hugsa vel um fólk

Í komandi kosningum gefst kjósendum tækifæri til að breyta áherslum stjórnvalda. Við eigum nóg af peningum og möguleikarnir á að bæta hag allra landsmanna eru rétt handan við hornið. Samfylkingin ætlar að gera íslensku heilbrigðisþjónustuna þá bestu í heimi, því í huga jafnaðarmanna er velferð undirstaða góðs efnahags og samfélags, eins og dæmin sanna hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndunum.

Á undanförnum árum hefur verið lögð á það áhersla á að lækka veiðigjöld, lækka skatta á þá sem nú þegar hafa það gott, en hækka matarskatt á almenning og svelta velferðarþjónustuna.

Samfylkingin ætlar að breyta þessum áherslum og setja meiri peninga í heilsugæsluna svo hún geti tekið á móti öllum sem kenna sér meins og við ætlum henni veigamikið hlutverk í að stórefla sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu. Við ætlum að stytta biðlista þannig að enginn þurfi að bíða lengur en þrjá mánuði eftir viðeigandi aðgerð eða þjónustu. Við viljum að heilbrigðisþjónustan verði gjaldfrjáls og þar eru fyrstu skrefin að lækka kostnað þeirra sem eru alvarlega veikir og langveikir.

Við ætlum að líka að auka sérfræðilæknaþjónustu í hinu opinbera heilbrigðiskerfi, fyrir alla íbúa landsins og skapa heilbrigðisstarfsfólki starfsaðstæður sem standast samanburð við Norðurlöndin. Þess vegna ætlum við að hraða uppbyggingunni við Hringbraut til að auka öryggi sjúklinga, bæta aðstæður starfsfólks með byltingarkenndum hætti og efla vísindastarfið.

Breytingar í vændum

Það hefur nánast verið spaugilegt á köflum að hlusta á forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tala um afrek sín á þessu stutta kjörtímabili. Þeir tala eins og það sé ofar mannlegum skilningi hve stórkostleg afrekin eru. Þegar orð þeirra eru dregin niður á jörðina og skoðuð í samhengi kemur hið sanna í ljós. Þeir fengu í heimanmund hallalausan ríkissjóð og því til viðbótar lágt olíuverð, metfjölda ferðamanna og fullt af makríl. Við slíkar aðstæður ætti í það minnsta velferðarkerfið að styrkjast og samgöngur batna, en svo er ekki. Þeir ríku verða bara ríkari og hitt látið danka.

Það var ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem kom á efnahagslegum stöðugleika, en í kjölfarið var beygt til hægri. Næstu ríkisstjórnar bíður það verkefni að koma einnig á félagslegum stöðugleika, þar sem hugað er að velferð og lífsgæðum fólks.

Með kosningunum framundan fáum við tækifæri upp í hendurnar til að gera góðar breytingar. Panamaskjölin, hrunið og öll sérhagsmunagæslan sem viðgengist hefur, gerir það að verkum að þjóðin þolir ekki lengri bið eftir réttlæti og sanngirni. Samfylkingin er klár í baráttuna fyrir einmitt þessu – með fólkinu í landinu.

Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.

Höf.: Oddnýju Harðardóttur