[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Kostnaður á hvern grunnskólanema er afar mismunandi eftir skólum og landshlutum og dæmi eru um að nemandi í einum skóla kosti um sjö sinnum meira en nemandi í öðrum skóla.

Baksvið

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Kostnaður á hvern grunnskólanema er afar mismunandi eftir skólum og landshlutum og dæmi eru um að nemandi í einum skóla kosti um sjö sinnum meira en nemandi í öðrum skóla. Stærð skóla skiptir talsverðu máli í þessu sambandi, en þess fyrir utan hefur margt áhrif, eins og t.d. hvaða þjónustu skólarnir veita, en hún er mismikil. Þá getur verið allt að fimmtánfaldur munur á rekstrarkostnaði grunnskóla á hvern íbúa í sveitarfélagi. Hér er verið að tala um beinan rekstrarkostnað, þ.e. búið er að draga frá skólaakstur og svokallaða innri leigu.

Hagstofa Íslands birti í síðustu viku upplýsingar um meðalkostnað á grunnskólanema í september 2016. Sú tala er byggð á ársreikningum sveitarfélaga fyrir síðasta ár og tekið var tillit til verðlagsbreytinga fram í september. Þegar verðlagsbreytingum hafði verið bætt við var niðurstaðan sú að hver nemandi hefði kostað 1.791.292 krónur en án þeirrar viðbótar var meðalrekstrarkostnaðurinn á nemanda 1.651.002 kr. fyrir árið í fyrra.

Í lykiltölum úr rekstri sveitarfélaga fyrir árið 2015 kemur fram að dýrustu grunnskólanemendurnir í fyrra voru í Árneshreppi, þar sem rekstrarkostnaður á hvern var tæpar 5,5 milljónir. Minnst kostaði hver nemandi í Garðabæ, eða 1.027.000 krónur. Athygli vekur að stærsta sveitarfélagið, Reykjavík, er með nánast sama kostnað á nemanda og sveitarfélög sem eru talsvert minni, eins og t.d. Grindavík og Akureyri, þar sem hver nemandi kostar þúsund krónum meira á ári en reykvískur nemandi.

Talsverður munur er líka á milli einstakra skóla. Þannig kostar 6.395.000 kr. að kenna hverjum nemanda í Grunnskólanum Hofgarði en 937.000 kr. að kenna hverjum nemanda í Melaskóla. Munurinn er næstum því sjöfaldur.

Rekstrarkostnaður grunnskóla á hvern íbúa sveitarfélaga er sömuleiðis mishár. Hæstur er hann í Reykhólahreppi, 628.000 krónur, og lægstur í Tjörneshreppi, þar sem hann er 41.000, um 15 sinnum lægri. Stærð sveitarfélaga virðist heldur ekki skipta öllu máli í þessu sambandi, því kostnaður á hvern íbúa í Reykjavík er talsvert hærri en í mörgum minni sveitarfélögum eins og t.d. Fjallabyggð og Reykjanesbæ.

Mismikil þjónusta

„Þar sem nemendur eru mjög fáir verður meðalkostnaður á hvern og einn alltaf miklu hærri en þar sem þeir eru fleiri,“ segir Valgerður Freyja Ágústsdóttir, sérfræðingur á hag- og upplýsingasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga. „Það er stærðarhagkvæmni í þessu eins og mörgu öðru, þótt það sé ekki algilt.“

Valgerður segir samanburð sem þennan þjóna ýmsum tilgangi og hvorki sveitarfélög né einstakir skólar ættu að hræðast hann. „Svona samanburður er góður fyrir sveitarfélögin, þannig geta þau t.d. séð hvað nemendur í skólum af sambærilegri stærð í öðrum sveitarfélögum kosta. En það er að ýmsu að hyggja í þessu og það þarf að hafa í huga að eðlilegar skýringar geta verið á muninum.“

Í þessu sambandi bendir Valgerður á að þjónustan sem einstakir skólar veita sé mismikil. Til dæmis reki sumir skólar sérdeildir fyrir nemendur úr fleiri skólum í sama sveitarfélagi, það hafi áhrif á rekstrarkostnað viðkomandi skóla og þar með verði hver og einn nemandi í þeim skóla dýrari en ella. „Þetta er lögbundin þjónusta sem kostar mismikið og það eru ekki til nein opinber viðmið um hver rekstrarkostnaður skóla á að vera,“ segir Valgerður.