Mælt er með því að Bretar taki upp íslenska kvótakerfið

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur nú sagt að útgönguferli landsins úr Evrópusambandinu hefjist fyrir lok mars á næsta ári. Frá þeim tíma hafa Bretland og ESB tvö ár til að semja um skilmála úrsagnarinnar.

Mikill hræðsluáróður var rekinn fyrir Brexit-kosningarnar, en hrakspárnar hafa sem kunnugt er ekki gengið eftir. Með úrsögn skapast á hinn bóginn margvísleg tækifæri fyrir Breta sem þeir þurfa að reyna að nýta sér sem best. Eitt þessara tækifæra er á sviði sjávarútvegs, en undanfarna áratugi hafa Bretar þurft að búa við afleita stefnu Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum.

Í nýrri skýrslu Institute of Economic Affairs, sem samin er af Philip Booth, prófessor og yfirmanni rannsókna hjá IEA, er fjallað um tækifæri Breta í sjávarútvegsmálum eftir útgöngu úr ESB. Þessi skýrsla er afar áhugverð fyrir Íslendinga, þar sem Booth mælir með að Bretar taki upp fiskveiðistjórnarkerfi að íslenskri fyrirmynd. Hann bendir á að kerfi ESB hafi brugðist og leitt til ofveiði og óhagkvæmni í greininni, en að íslenska leiðin, með aflahlutdeildarkerfi þar sem eru framseljanlegar og varanlegar veiðiheimildir, hafi reynst hagkvæm og stuðli að sjálfbærri nýtingu fiskistofnanna. Með íslenska fyrirkomulaginu séu það hagsmunir sjávarútvegsins að fara vel með fiskistofnana, sem er afar mikilvægt fyrir þjóðir sem byggja afkomu sína að stórum hluta á sjávarútvegi.

Það er vissulega sérkennilegt að á sama tíma og mælt er með því erlendis að tekið verði upp fiskveiðistjórnarkerfi að íslenskri fyrirmynd skuli nokkrir þeirra flokka sem bjóða fram til Alþingis hafa á stefnuskrá að kollvarpa kerfinu.