Páll Matthíasson
Páll Matthíasson
Laufey Rún Ketilsdóttir laufey@mbl.

Laufey Rún Ketilsdóttir

laufey@mbl.is

„Við framkvæmdastjórnin munum funda með fulltrúum þessara lækna og stjórnendum bráðamóttökunnar í dag til að fara yfir þetta nánar en við höfum verið að berjast við þetta vandamál árum saman,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í samtali við Morgunblaðið en hann gerði bréf frá bráðalæknum spítalans að umfjöllunarefni í pistli sem hann birti á vefsíðu Landspítalans fyrir helgi.

„Telja þeir að við ástandið verði ekki unað enda geti þeir ekki tryggt öryggi sjúklinga sinna við aðstæður sem allt of oft skapast í starfseminni. Þannig hefur það ítrekað gerst að alvarlega slasaðir eða veikir einstaklingar hafa þurft að liggja á göngum bráðamóttökunnar jafnvel sólarhringum saman,“ segir hann í pistlinum og vísar til bréfs 22 sérfræðinga á bráðadeild.

Páll segir vandann í grunninn vera kerfisins en ekki einstakra deilda. „Auðvitað er aðflæði ákveðið vandamál en það er minna vandamál en fráflæðið á bráðamóttökunni.“ Á hverjum morgni séu að meðaltali fimmtán sjúklingar sem liggi á bráðamóttökunni og þurfi innlögn en komist ekki á viðeigandi deildir. Á deildunum liggi fólk fyrir sem oftar en ekki sé búið að fá meðferð en komist ekki af spítalanum í endurhæfingu eða á hjúkrunarheimili. Segir Páll meðalálagið á spítalann vera að aukast og því verði álagspunktar erfiðari en haustið hafi verið óvenjuannasamt.

Kerfisbreytingar mikilvægar

„Lausnirnar eru ekki einfaldar, þær eru fjölmargar og við þurfum að vinna að þeim með ráðuneytinu og heilsugæslunni,“ segir Páll en hann ætlar sér að fylgja eftir ákalli bráðalæknanna af fullum þunga.

Spítalinn mun taka að minnsta kosti þrjú skref á næstu mánuðum sem mæta munu vandanum að einhverju leyti þó að hann verði ekki endanlega leystur. Vinna er hafin við stofnun sérstakrar greiningardeildar þar sem markmiðið er að greina og meðhöndla sjúklinga hratt svo komast megi hjá lengri innlögn en tveimur sólarhringum, hjá völdum hópi.

Þá verða tvær almennar skurðdeildir sameinaðar í eina stærri deild en þá verður betur hægt að nýta starfsfólk og fjölga rýmum. Einnig verður gerð gangskör að því að endurskipuleggja dag- og göngudeildir spítalans þannig að þær séu nýttar með markvissari hætti en stundum má forða innlögnum með því að nota í staðinn þær deildir. Að auki er legurýmum bætt við þar sem kostur er.

Páll telur einnig að sjúklingahótel sem opnar á næsta ári muni greiða fyrir fráflæði sjúklinga. „Ekkert sem gert er innanhúss dregur samt úr mikilvægi stærri kerfisbreytinga,“ segir hann.