Eftirsótt Skildingafrímerki frá árunum 1873-1876 eru verðmæt. Frímerkin á myndinni seldust á tæpar 14 milljónir.
Eftirsótt Skildingafrímerki frá árunum 1873-1876 eru verðmæt. Frímerkin á myndinni seldust á tæpar 14 milljónir. — Steinar Friðþórsson
Bergþóra Jónsdóttir bj@mbl.is Íslensk frímerki seldust samanlagt á hálfa milljón evra með sölulaunum eða á rúmar 64 milljónir íslenskra króna á uppboði í Malmö í Svíþjóð sem haldið var á laugardaginn.

Bergþóra Jónsdóttir

bj@mbl.is

Íslensk frímerki seldust samanlagt á hálfa milljón evra með sölulaunum eða á rúmar 64 milljónir íslenskra króna á uppboði í Malmö í Svíþjóð sem haldið var á laugardaginn. Áttatíu prósent þeirra voru úr safni Indriða Pálssonar heitins, sem var forstjóri Skeljungs. Safnið seldist fyrir tvöfalt það verð sem var ásett og fór salan því fram úr björtustu vonum, að sögn Steinars Friðþórssonar, uppboðshaldara hjá uppboðshúsinu Postiljonen, sem bauð safnið upp.

Salan sem fram fór nú er sú síðari af tveimur og um fjörutíu prósent frímerkjanna úr heildarsafninu seldust nú. Tvö frímerki úr safninu voru eftirsóttust og seldust á töluvert hærra verði en hin, en það eru svokölluð skildingafrímerki. Dýrasta merkið fór á tæpar 14 milljónir og það næsta á 3,5 milljónir og voru það Íslendingar sem keyptu þau bæði. Að sögn Steinars eru það samt ekki bara Íslendingar sem kaupa frímerkin heldur eru kaupendur alls staðar að úr heiminum. „Þetta er ekki stór hópur manna en mjög fjölbreyttur og kannski sérstakar týpur manna sem hafa áhuga á frímerkjum.“

Uppboðshúsið í Malmö er vel þekkt á þessu sviði og hefur verið leiðandi í sölu íslenskra frímerkja frá árinu 1970, að sögn Steinars.

Eftirsótt skildingafrímerki

Frímerkin eru seld eftir uppboðsnúmerum og geta fleiri en eitt frímerki verið með sama númerið en fer það eftir verðgildi þess hversu mörg frímerki eru sett saman á eitt númer. Samkvæmt upplýsingum frá Steinari voru 283 uppboðsnúmer í safni Indriða. Dýrasta frímerkið úr safninu var frá árinu 1875 en það er frá tímabili sem er eftirsótt hjá frímerkjasöfnurum; árin 1873 til 1876. Þau voru gefin út í skildingum áður en krónur og aurar komu til og notuð í þrjú ár. Þess vegna er þau mjög eftirsótt og sjaldgæf og mikil verðmæti í þeim, segir Steinar. Fyrsti hluti safns Indriða, eða um 60 prósent safnsins, seldist á 70 milljónir íslenskra króna í mars á þessu ári. Sá hluti sem seldur var nú slagar upp í þá upphæð þó að um minni hluta hafi verið að ræða.