Óvissa Gestur á hluthafafundi Deutsche Bank gengur fram hjá merki bankans. Bandarísk stjórnvöld vilja leggja á bankann sekt sem er mun hærri en reiknað hafði verið með. Erfið staða Deutsche veldur skjálfta um alla Evrópu.
Óvissa Gestur á hluthafafundi Deutsche Bank gengur fram hjá merki bankans. Bandarísk stjórnvöld vilja leggja á bankann sekt sem er mun hærri en reiknað hafði verið með. Erfið staða Deutsche veldur skjálfta um alla Evrópu. — AFP
Vandamál Deutsche Bank virðast hafa valdið aukinni spennu á milli þýskra og bandarískra stjórnvalda.

Vandamál Deutsche Bank virðast hafa valdið aukinni spennu á milli þýskra og bandarískra stjórnvalda. Eins og greint hefur verið frá fer dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna fram á að bankinn greiði 14 milljarða dala vegna meintra blekkinga við sölu á skuldabréfum með húsnæðisveði. Er það mun hærri sekt en Deutsche hafði reiknað með og hefur málið leitt til mikillar lækkunar á hlutabréfaverði bankans.

Financial Times segir leiðtoga úr þýsku viðskipta- og stjórnmálalífi nú fylkja sér á bak við stærsta lánveitanda landsins. Þannig sagði Peter Ramsauer, sem fer fyrir efnahagsnefnd þýska þingsins, að aðgerðir bandarískra stjórnvalda gegn Deutsche Bank „beri einkenni efnahagslegs hernaðar“. Lét hann þessi ummæli falla í viðtali við Welt am Sonntag. Evrópuþingmaðurinn Markus Ferber tók í svipaðan streng og ýjaði að því að Bandaríkin væru að „svara í sömu mynt“ eftir að ESB ógilti skattasamning milli Írlands og Apple og gerði bandaríska tæknirisanum að greiða aukalega 13 milljarða evra í skatt.

Á föstudag hækkuðu hlutabréf Deutsche um 6% eftir að ýmsir fjölmiðlar greindu frá að bankinn væri nálægt því að semja um mun lægri sekt, upp á aðeins 5,4 milljarða dala. Reuters segir þær fréttir ekki enn hafa verið staðfestar.

Þá fékk bankinn enn einn skellinn á laugardag þegar dósmtóll í Mílanó fyrirskipaði að Deutsche, auk bankanna Monte dei Paschi di Siena og Nomura, myndi þurfa að koma fyrir rétt vegna meintra fjármálaglæpa sem miðuðu að því að fela taprekstur Monte dei Paschi. ai@mbl.is