Ágeng kvikmyndagerð Atriði úr <strong> Birtingarmynd ofbeldis</strong> eftir leikstjórann Deepu Mehta. Í myndinni er tekist á við hópnauðgun, sem var framin í Delhi á Indlandi fyrir fjórum árum og vakti óhug um allan heim.
Ágeng kvikmyndagerð Atriði úr Birtingarmynd ofbeldis eftir leikstjórann Deepu Mehta. Í myndinni er tekist á við hópnauðgun, sem var framin í Delhi á Indlandi fyrir fjórum árum og vakti óhug um allan heim.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Deepa Mehta. Leikarar: Vansh Bhardwaj, Tia Bhatia, Janki Bisht, Seema Biswas, Suman Jha, Jagjeet Sandhu. Hindí. Indland og Kanada, 2016. 93 mínútur.

Árið 2012 réðust sex menn á unga konu í strætisvagni í Delhi á Indlandi og nauðguðu henni með svívirðilegum hætti. Mennirnir höfðu lokkað hana í vagninn ásamt kærasta hennar. Ofbeldið var svo hrottalegt að 13 dögum síðar lést hún af sárum sínum. Morðið á Jyoti Singh vakti athygli um allan heim og á Indlandi brutust út mikil mótmæli og fylgdu þeim kröfur um umbætur til að draga úr ofbeldi á hendur konum.

Árásin er umfjöllunarefni leikstjórans Deepa Mehta í nýjust mynd sinni, Birtingarmynd ofbeldis , sem fyrir nokkrum dögum var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto.

Birtingarmynd ofbeldis er mjög óvenjuleg kvikmynd og meira í ætt við tilraunaleikhús en hefðbundna kvikmyndagerð. Í myndinni reynir Mehta að átta sig á úr hvaða umhverfi árásin á Jyoti Singh er sprottin. Í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins fyrir viku lagði hún áherslu á að ekki vekti fyrir henni að bera blak af árásarmönnunum, þeir beri ábyrgð á gerðum sínum. Ofbeldið verði þó ekki til í tómarúmi. „Samfélagið er ábyrgt fyrir því að skapa menn sem framkvæma slíka glæpi; samfélag sem einkennist af feðraveldi, fátækt, valdatafli og mannfyrirlitningu getur búið til slíka menn. Hvað er það sem býr til þessi skrímsli? Það er spurning mín,“ sagði Mehta í viðtalinu.

Grimmd mannsins er sígilt viðfangsefni. Það er freistandi að vísa grimmdarverkum frá sér og stimpla fremjendur þeirra sem óargadýr í mannsmynd. En við vitum að það er of einfalt. Hannah Arendt talaði um hversdagsleika illskunnar þegar hún skrifaði um réttarhöldin yfir Adolf Eichmann í Jerúsalem.

Í Birtingarmynd ofbeldis er saga nauðgaranna í strætistvagninum sögð. Í lýsingum á gerð myndarinnar kemur fram að leikararnir notuðu brot úr ævi þeirra sem komu fram í frásögnum fjölmiðla um réttarhöldin yfir þeim og spunnu sig áfram. Að því leyti er tæplega hægt að segja að myndin sé sannsöguleg þótt engu sé hnikað, sem snertir árásina sjálfa. Sömu leikarar leika árásarmennina á fullorðinsárum og á barnsaldri. Áhorfendur eru vanir slíkum brögðum í leikhúsi, en hætt er við að það verði hjákátlegt þegar þetta er gert á hvíta tjaldinu. Það merkilega er hins vegar að þetta virkar. Sýnt er hvernig þeir eru beittir kynferðislegu ofbeldi í æsku og fara að gera slíkt hið sama við aðra. Atriði þar sem einum þeirra er nauðgað sjö ára að aldri er sérstaklega sterkt og skelfing hins hjálparvana barns skín úr andliti hins fullorðna leikara.

Þeir eru fastir í gildru fátæktar og vonir þeirra um að komast áfram í lífinu eru hverfandi.

Singh er hins vegar ofar í þjóðfélagsstiganum. Hún er í háskólanámi og á framtíðina fyrir sér.

Mehta hefur gert fjölda kvikmynda. Mynd hennar Vatn var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir bestu erlendu myndina. Í Birtingarmynd ofbeldis fer hún allt aðrar leiðir en hún er vön. Sviðsetningar eru nánast engar í myndinni og varla notaður farði á leikarana. Tökuvélin er einfaldlega sett af stað og byrjað að leika.

Þótt umfjöllunarefnið sé erfitt og hrottalegt er myndin ekki gróf. Nauðgunin sjálf er ekki sýnd. Singh sést stíga upp í strætisvagninn ásamt kærasta sínum og í næsta atriði sjást árásarmennirnir skipta ránsfeng sínum á milli sín.

Birtingarmynd ofbeldis vekur til umhugsunar um þau áhrif, sem umhverfið hefur á einstaklinginn. Í myndinni er lýst samfélagi bælingar og kúgunar. Á botni þess sitja þeir, sem samfélagið hefur hafnað.

Enn hefur ekki fundist lokasvar, pakkað inn með borða og slaufu, um rót ofbeldisins og illskunnar og kannski er það ekki til. Það er ekki að finna í Birtingarmynd ofbeldis, enda er það ekki markmið Mehta. Hún vekur hins vegar spurningar og stuggar við okkur. Ekkert þjóðfélag er laust við ofbeldi. Það er líka of langt gengið að ætla að þjóðfélagið sé eins og forritari, en það fer heldur ekki á milli mála að viðteknar hugmyndir og kreddur hafa mótandi áhrif. Það var ekki tilviljun að einn árásarmannanna sagði eftir verknaðinn að sómakær kona hefði ekki verið á ferli á þeim tíma, sem Singh steig í vagninn. Varð hún þá réttmæt bráð?

Mehta fer óvenjulega leið til þess að vekja óþægilegar og ágengar spurningar. Aðferðin gengur ekki alltaf upp, en leikstjórinn sýnir hugrekki með nálgun sinni. Þetta form hefur örugglega líka gefið Mehtu meira frelsi til að fara sínar leiðir, en hefði hún ákveðið að gera stórmynd í anda Miðnæturbarna, sem hún gerði eftir bók Salmans Rushdies. Árásin leiddi til vakningar á Indlandi um ofbeldi gegn konum. Áður mátti ekki ræða nauðganir og kynferðisofbeldi, en nú er það breytt, þótt konur séu langt frá því að vera öruggar á götum úti. Birtingarmynd ofbeldis er mikilvægt innlegg í þessa umræðu og verður fróðlegt að sjá hvernig henni verður tekið á Indlandi.

Karl Blöndal

Háskólabíó: Þri. 4. okt., kl. 17.30, sun. 9. okt., kl. 20.00.
Höf.: Karl Blöndal