Tækni „Það er enginn að segja að þú þurfir að hætta að nota tölvu,“ segir Þorsteinn hér í viðtalinu.
Tækni „Það er enginn að segja að þú þurfir að hætta að nota tölvu,“ segir Þorsteinn hér í viðtalinu. — Morgunblaðið/Ófeigur
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Vaxandi fjöldi fólks finnur fyrir einkennum þess sem kallast getur tölvufíkn. Margir sitja löngum stundum við skjáinn og láta sig berast á öldum nets og veraldarvefs út um heiminn. Slíkt er ágætt en öllu má ofgera.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Vaxandi fjöldi fólks finnur fyrir einkennum þess sem kallast getur tölvufíkn. Margir sitja löngum stundum við skjáinn og láta sig berast á öldum nets og veraldarvefs út um heiminn. Slíkt er ágætt en öllu má ofgera. Þegar fólk hefur ánetjast tölvunni algjörlega er nauðsynlegt að leita hjálpar – og ýmsir hafa til dæmis komið til Hugarafls, þjónustumiðstöðvar fólks með geðrænan vanda. Á dögunum var haldinn fyrirlestur hjá Hugarafli - í samvinnu við geðheilsustöðina í Breiðholti þar sem Þorsteinn Kristjáns Jóhannsson framhaldsskólakennari ræddi af eigin reynslu um tölvufíkn og leiðir til að sigrast á henni.

„Heildartími fyrir framan tölvu er ekki mælikvarði á tölvufíkn,“ segir Þorsteinn. „Til eru ótal dæmi um fólk sem hefur verið 10 klukkustundir á dag í tölvunni, jafnvel svo árum skiptir, en notar hana í dag eðlilega og í hófi. Að nota heildartíma fyrir framan tölvu sem mælikvarða er þó ekki réttur eða sanngjarn mælikvarði. Það er eins og að dæma öll ungmenni á djamminu sem alka.“

Sams konar og önnur fíkn

Þorsteinn bendir á að óhófleg tölvunotkun sé fíkn af sama meiði og aðrar slíkar. „Auðvitað getur fólk haft til að bera ákveðin einkenni sem geta aukið líkurnar á að tölvufíkn nái tökum á því. Séu kvíði, þunglyndi, áráttuhegðun og félagsfælni undirliggjandi þættir í persónugerð viðkomandi er hættan á fíkn meiri. Sumir eru hins vegar svo heppnir að tölvunotkunin er eingöngu hvimleiður ávani. Sé svo hefur viðkomandi meiri möguleika en aðrir á að minnka notkun, til dæmis með auknum þroska eða breyttum aðstæðum. En svo vil ég líka benda á að snjallsími er tölva sem hægt er að hringja úr. Ofnotkun á snjallsíma og tölvu er sami hluturinn. Þeir sem eru ósammála þessu geta tekið lítið próf. Notaðu snjallsímann þinn eingöngu til að hringja úr og svara símtölum og senda SMS í svo sem eina viku. Ef þú kemst af með slíkt er fíknin ekki til staðar,“ segir Þorsteinn.

En hvenær er fíknin þá til staðar? „Er tölvan farin að skaða heilsu og hreinlæti meints fíkils, skaða samband við fjölskyldu og vini, hafa neikvæð áhrif á tómstundastörf, vinnu eða skóla? Ef einhverju eða öllu þessu er svarað játandi er meinsemdin veruleiki.“

Árekstur sem hefur áhrif

„Snjallsímavæðing hefur breytt heimsmyndinni og mannlegum samskiptum. Ég myndi ekki ganga svo langt að segja að tæknifyrirtæki hafi gert valdarán í mannheimum. Það hefði þá gerst þegar netið kom fyrst fram. En vissulega er manneskjan sjúk í afþreyingu og í stafrænni veröld gefast góð tækifæri til að fullnægja þeirri þörf. Í dag er snjallsímavæðingin á frumstigi. Fólk notar tæknina hömlulaust en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir Þorsteinn sem taka mun þátt í starfi Hugarafls þar sem starfrækja á stuðningshópa fyrir fólk með tölvufíkn. Í hópunum þar mun fólk hittast, segja frá sinni reynslu og fá þannig styrk hvað frá öðru.

„Mín skilaboð til tölvufíkils eru þau að setja fókus á atriðin í lífinu sem skipta máli, svo sem fjölskyldu, vini, vinnu og fleira. Það er enginn að segja að þú þurfir að hætta að nota tölvu heldur taka hana úr fyrsta sæti og færa aftar. Ef þú vilt ekki takast á við vandann, þarftu að reka þig harkalega á áður en þú vaknar og sá árekstur hafa varanleg áhrif.“