Baldur Þórhallsson
Baldur Þórhallsson
Takist framsóknarmönnum að slíðra sverðin eftir hörð átök undanfarið geta þó nokkur tækifæri falist með nýrri forystusveit fyrir Framsóknarflokkinn. Þetta er mat Baldurs Þórhallssonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Takist framsóknarmönnum að slíðra sverðin eftir hörð átök undanfarið geta þó nokkur tækifæri falist með nýrri forystusveit fyrir Framsóknarflokkinn. Þetta er mat Baldurs Þórhallssonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Hann segir flokkinn bjóða upp á nýja forystu, formann sem hefur verið farsæll forsætisráðherra í nokkra mánuði og höfði til landsbyggðarinnar.

„Auk þess að bjóða upp á nýjan varaformann. Nýtt andlit, nýja konu í stjórnmálum sem höfðar, að ég tel, meira til hefðbundins fylgis á höfuðborgarsvæðinu og er nokkuð óumdeild. Bæði innan flokks og utan,“ segir Baldur. „Þannig hefur Framsóknarflokknum rétt einu sinni tekist að endurnýja sig fyrir kosningar.“

Standa uppi sem sigurvegarar

Tæpar fjórar vikur eru til kosninga og telur Baldur að þau Sigurður og Lilja verði nokkuð áberandi í umræðunni einfaldlega vegna þess að þau eru nýkjörin. „Þau standa uppi sem sigurvegarar og það skapar Framsóknarflokknum tækifæri í kosningunum,“ segir Baldur. „Þá er málefnaleg samstaða innan flokksins, það er ekki deilt um málefni heldur menn. En til að þau tvö geti náð árangri þarf þessum bræðravígum að linna.“

Að sögn Baldurs er tilhneiging til þess í samfélaginu að vanmeta Framsóknarflokkinn fyrir kosningar. „Hann er oft, ef ekki alltaf, vanmetinn og fær yfirleitt mun meira í kosningum en skoðanakannanir nokkrum vikum fyrir kjördag gefa til kynna. Menn mega ekki eina ferðina enn vanmeta Framsóknarflokkinn, þá gríðarlegu kosningamaskínu sem hann hefur og klókindin í kosningabaráttu,“ segir Baldur.

Baldur segir að með nýrri forystu hafi flokknum ekki aðeins tekist að styrkja stöðu sína fyrir kosningarnar heldur ekki síður fyrir stjórnarmyndunarviðræður. „Ég tel að Sigurður Ingi geti bæði unnið til hægri og vinstri. Það var erfitt að sjá fyrir sér vinstri samstarf með Sigmund við stjórn en Sigurður og Lilja eiga auðvelt með að vinna til hægri og vinstri. Þannig er Framsóknarflokkurinn kominn enn eina ferðina í þá lykilstöðu í íslenskum stjórnmálum að geta myndað stjórn til hægri og vinstri.“