Leið okkar liggur suður eftir Krímskaga um frjósamt akurlendi. Við sólarupprás þennan morgun má sjá landið vakna, rökkrið og næturdöggina víkja fyrir geislum sólar, fólk er komið á stjá og líf hefur færst í þorpin.

Leið okkar liggur suður eftir Krímskaga um frjósamt akurlendi. Við sólarupprás þennan morgun má sjá landið vakna, rökkrið og næturdöggina víkja fyrir geislum sólar, fólk er komið á stjá og líf hefur færst í þorpin. Á nýplægðum ökrum bograr fólk við einhverja sýslan og kúagæslumenn hafa tekið til við starfa sinn sem virðist fólginn í því einu að bíða. Okkur verður starsýnt á gráar kofabyggingar sem standa dreifðar á ökrum. Það er ómögulegt að geta sér til um hlutverk þeirra, líkjast helst brunnhúsum. Flestir kofanna virðast heldur nýlegir og hlaðnir úr holsteini. Sumir standa í þyrpingum en aðrir líkjast einförum sem kjósa að halda sig til hlés. Allir eiga það sameiginlegt að vera svo litlir að þar gætu tæpast fleiri en tvær manneskjur staðið og sennilega ekki lagt sig. Notagildi þeirra er afar órætt. Fæstir hafa glugga. Það eitt er til marks um að þetta séu „hús“, að hægt er að ganga inn og út um dyr, en margar virðast hurðarlausar. Eins og gildir um flest annað í samfélögum okkar manna eru einhverjar ástæður fyrir því að þessir kofar standa á ökrum. Svars við spurningunni um tilgang er að leita í sögu þjóðar sem búið hefur á Krímskaga um aldir og hefur stöðu frumbyggja. Hversu margar aldirnar eru er ekki vitað með vissu...

Við lok seinni heimsstyrjaldar hefði mátt ætla að sovéskum stjórnvöldum hefði verið í mun að efla samstöðu innan ríkisins og virkja sem flesta í þeirri uppbyggingu sem var óhjákvæmileg eftir hinar gríðarlegu fórnir sem stríðið hafði kostað sovéskt samfélag. En því fór víðs fjarri. Í stað þess að hvetja almenna borgara til þátttöku í uppbyggingarstarfi voru embættismenn, leynilögregla og hermenn virkjuð til víðtækra þjóðernishreinsana. Hver sá sem ekki féll að staðalímynd „hins venjulega“ átti á hættu að vera sendur í útlegð á steppur Mið-Asíu, á sífrera Síberíu eða inn í eilífðina.

Víða í Sovétríkjunum var þó ekki verið að bíða stríðsloka enda sáu Stalín og nánustu samstarfsmenn hans hættulega andstæðinga í hverju horni. Aðfaranótt 18. maí 1944 var komið að samfélagi Tatara á Krím og þeim gefið að sök að hafa starfað með nasistum. Þá nótt voru híbýli þeirra umkringd af sveitum úr Rauða hernum og leynilögreglunni sem gengu hús úr húsi og ráku fólk að næstu járnbrautarstöð og þar inn í gripavagna. Svo hratt var gengið til verks að innan þriggja sólarhringa voru 367.967 Krím-Tatarar á leið í útlegð og nauðungarvinnu, aðallega í Úsbekistan og öðrum ráðstjórnarlýðveldum Mið-Asíu en einnig í Síberíu. Leiðin var löng í þétttroðnum vögnum án vatns og matar á leið eitthvað sem enginn vissi hvert lá eða hvenær myndi enda. Þegar lestirnar komu á leiðarenda má ætla að hátt í helmingur farþega gripavagnanna hafi ekki verið með lífsmarki. Af þeim sem lifðu ferðina af dóu um 18% á næstu 18 mánuðum, þar af mikill fjöldi kvenna og barna. 5) Aldagamalt menningarsamfélag var horfið.

Þessara atburða minntist Krím-Tatarinn Jamala vorið 2016 í Stokkhólmi með Eurovisionlagi sínu, 1944. Þegar evrópskur almenningur leiddi Jamölu til sigurs með sitt tregafulla lag um örlög Krím-Tatara vantaði átta daga í að 72 ár væru liðin frá því að fimm barna móðir með barnaflokk sinn var flutt ásamt þúsundum annarra í lokuðum gripavögnum til Úsbekistan. Konan, sem Jamala minntist með þessum söng undir sterkum tatörskum áhrifum, var langamma hennar, Nazylkhan.

...Og þá er komið að ráðgátunni um gráu kofana sem við tókum eftir á sléttum ökrum Krímskaga í byrjun þessarar ferðar. Þeir stærstu eru „íbúðarhús“ þar sem réttlaust fólk lifir í voninni um að mega búa frjálst á ættjörð sinni. Hinir kofarnir, sem kalla má táknræn hús, eru reistir af fólki án ríkisfangs í þeirri von að um síðir verði frumvarp að lögum þar sem segir að Tatari sem sannað geti eign sína á landi og húsnæði geti fengið full borgararéttindi. Þá fyrst væri útlegð heillar þjóðar á enda.