Skot Rakel Dögg Bragadóttir með skot að marki Vals í sigri Stjörnunnar. Rakel skoraði fjögur mörk í leiknum.
Skot Rakel Dögg Bragadóttir með skot að marki Vals í sigri Stjörnunnar. Rakel skoraði fjögur mörk í leiknum. — Morgunblaðið/Eggert
Handbolti Hjörvar Ólafsson Ívar Benediktsson Guðmundur Tómas Sigfússon Stjarnan varð í gærkvöldi fyrsta liðið til þess að leggja Val að velli í Olísdeild kvenna í handknattleik í vetur. Lokatölur í leik liðanna urðu 29:26 eftir jafnan og spennandi leik.

Handbolti

Hjörvar Ólafsson

Ívar Benediktsson

Guðmundur Tómas Sigfússon

Stjarnan varð í gærkvöldi fyrsta liðið til þess að leggja Val að velli í Olísdeild kvenna í handknattleik í vetur. Lokatölur í leik liðanna urðu 29:26 eftir jafnan og spennandi leik.

Leikurinn var í járnum frá upphafi til enda og munurinn var mestur þrjú mörk, en það var á lokaandartökum leiksins sem Stjarnan náði þriggja marka forskoti.

Sóknarleikur beggja liða var vel útfærður heilt yfir í leiknum, en það var slakur varnarleikur Vals þegar mest á reyndi og óskynsamlegar ákvarðanir í sóknarleik liðsins á ögurstundu sem varð liðinu að falli.

Leikmenn Stjörnunnar héldu aga í sóknarleik sínum allt til enda og náðu hvað eftir annað að galopna götótta vörn Vals undir lok leiksins. Leikmenn Stjörnunnar voru þolinmóðir í sóknaraðgerðum sínum og létu boltann ganga þar til gott færi fékkst. Á sama tíma tóku leikmenn Vals ótímabær skot og hættu að spila sem lið þegar líða tók á leikinn.

Það var gaman að sjá Þorgerði Önnu Atladóttur aftur inni á handboltavellinum, en hún skoraði tvö mörk fyrir Stjörnuna í fyrsta leik sínum fyrir liðið í vetur. Þetta var fyrsti leikur Þorgerðar Önnu síðan í desember á síðasta ári.

Haukar betri en meistararnir

Íslandsmeistarar Gróttu töpuðu sínum þriðja leik á Íslandsmótinu þegar þeir mættu Haukum á heimavelli í 4. umferð á laugardaginn, 29:25. Þar með situr Grótta áfram í sjötta sæti af átta liðum deildarinnar með tvö stig. Haukar eru hins vegar á góðu róli í efri hluta deildarinnar með þrjá sigurleiki í fjórum tilraunum.

Fyrri hálfleikur var jafn en góður leikkafli á síðustu mínútunum færði Gróttu tveggja marka forskot í hálfleik, 15:13. Grótta náði fjögurra marka forskoti í byrjun síðari hálfleiks en eftir það urðu kaflaskil í leiknum. Haukar tóku völdin, jafnt í vörn sem sókn, og náðu mest sex marka forskoti.

Gróttuliðið hefur tekið miklum breytingum frá síðasta keppnistímabili. Burðarásar hurfu á braut í sumar. Lovísa Thompson og Þórey Anna Ásgeirsdóttir reyndu hvað þær gátu í leiknum til þess að halda leik þess uppi en þegar Haukar náðu að loka á þær var ekkert til ráða hjá þjálfarateymi liðsins enda tók Kári Garðarsson þjálfari tapið á sig í samtali við mbl.is eftir leikinn. „Ég var ekki með lausnirnar,“ sagði hann m.a.

Maria Ines fór á kostum í liði Hauka og skoraði tug marka. Jóna Sigríður Halldórsdóttir, Elín Anna Baldursdóttir og Elín Jóna Þorsteinsdóttir léku einnig vel. Ramune Pekarskyte er enn utan liðs eftir höfuðhögg sem hún hlaut í vor og er óvíst hvort hún verður nokkuð með á keppnistímabilinu.

ÍBV hélt Selfyssingum án stiga

ÍBV hafði betur gegn Selfossi í Vestmannaeyjum. Lokatölur voru 32:29 en staðan í hálfleik var 15:13. Enn vantaði marga leikmenn hjá ÍBV sem nældi sér í sinn þriðja sigur í deildinni. Selfoss er enn án stiga á botninum en liðið mætir Fylki, sem er einnig án stiga, í næstu umferð.

Selfyssingar voru með 5:1 forystu í upphafi leiks áður en allt fór til fjandans hjá þeim. ÍBV skoraði næstu sex mörk og náði nokkrum öðrum svipuðum köflum í leiknum. Leikur gestanna var kaflaskiptur og voru slæmu kaflarnir virkilega slæmir. Klárt áhyggjuefni fyrir Selfoss þar sem liðið átti erfitt með að setja saman góðan tíu mínútna kafla.

Heimakonur gerðu þó vel í að refsa Selfyssingum og hefði sigurinn vel getað verið stærri. ÍBV hélt fjögurra til fimm marka forystu allan leikinn og var sigurinn í raun aldrei í hættu. Tímabilið fer því virkilega vel af stað hjá ÍBV og líta Eyjakonur út fyrir að geta unnið hvaða lið sem er. Gestirnir mega þó vera áhyggjufullir en liðið mætir Fylki í næstu umferð í leik sem verður mikilvægur þegar uppi verður staðið. Mótið stendur þó yfir fram í apríl eins og Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, sagði í samtali við mbl.is eftir leik.