Erla María Markúsdóttir
erla@mbl.is
„Ég hef ekkert verið að syngja hérna heima síðustu misserin og er fullur tilhlökkunar,“ segir Bjarni Thor Kristinsson óperusöngvari. Hann mun koma fram á hádegistónleikum í Hafnarborg á morgun, þriðjudag.
Ásamt Bjarna kemur Antonía Hevesí píanóleikari fram á tónleikunum, en hún hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins. „Ég hef oft unnið með Antoníu í gegnum tíðina, hún er einn af flinkari óperutónlistarmeðleikurum hér á landi og það er mikill fengur að hafa hana hér. Okkar samstarf nær mörg ár aftur í tímann,“ segir Bjarni. Efnisskrána völdu þau í sameiningu. „Við völdum okkur tónlist sem okkur langar til að flytja og lýsa má sem blandi í poka af hinum ýmsu aríum.“ Á efnisskránni verða aríur sem spanna breitt svið óperubókmenntanna. Hefndir, peningar, rógburður og bænir eru umfjöllunarefni þeirra verka sem Bjarni mun flytja úr óperunum Brúðkaupi Figaros eftir Mozart, Rakaranum frá Sevilla eftir Rossini, Fidelio eftir Beethoven og Simone Boccanegr a eftir Verdi.
Bjarni segir að þar sem um stutta tónleika er að ræða, eða um hálftíma, hafi þau þurft að velja aríurnar af kostgæfni. „Áhugafólk um óperur mun þekkja þessar aríur mjög vel. Þetta er stutt dagskrá og það er ekki hægt að koma miklu fyrir svo að við þurftum aðeins að velja og hafna, en við reyndum samt að vera með fjölbreytta dagskrá. Þetta eru ólík tónskáld og ólík tónlist þó hún sé inni í þessum óperugeira, allt frá því að vera alvarleg yfir í að vera glettin, með boðskap og ekki með boðskap,“ segir Bjarni.
Stikkprufa af óperutónlist
Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir og enginn aðgangseyrir. Húsið er opnað kl. 11.30. Hafnarborg er til húsa við Strandgötu 34 í Hafnarfirði.Bjarni er mjög hrifinn af þessu fyrirkomulagi og húsnæðinu. „Það er frábært að syngja í Hafnarborg, þetta er æðislegur salur með góðum hljómburði. Þetta er sniðugt fyrirkomulag, fólk kíkir inn og fær smá stikkprufu af óperutónlist í þessu tilviki og heldur svo bara út í daginn.“
Eftir gott sumarfrí á Íslandi verður Bjarni áfram á faraldsfæti í vetur. „Ég er pínulítið að ýta mér og röddinni í gang með þessum tónleikum. Vetrarvertíðin er að fara í gang og ég er að fara til Þýskalands eftir nokkrar vikur.“ Þar mun Bjarni fara með hlutverk í Brottnáminu úr kvennabúrinu eftir Mozart. Þaðan liggur leiðin til Amsterdam þar sem hann mun syngja í Parsifal eftir Wagner. Eftir áramót er ferðinni heitið til Peking þar sem Bjarni mun fara með hlutverk í Rósariddaranum eftir Strauss. „Ég hef ekki sungið í Peking áður og hlakka til að upplifa það.“