Elliði Vignisson
Elliði Vignisson
Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.is Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, mun í dag rita Ólöfu Nordal innanaríkisráðherra bréf þar sem hann lýsir yfir áhuga sveitarfélagsins á að reka nýja Vestmannaeyjaferju.

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, mun í dag rita Ólöfu Nordal innanaríkisráðherra bréf þar sem hann lýsir yfir áhuga sveitarfélagsins á að reka nýja Vestmannaeyjaferju. Fjallað var um málið í bæjarráði Vestmannaeyja sl. fimmtudag.

„Við lítum svo á að þjónusta Herjólfs sé ekki bara hluti af innri gerð samfélagsins heldur hornsteinn þess í eyjabyggð eins og okkar,“ segir Elliði um málið. „Það er eðlilegt að við eigum viðræður við ríkið um hvar slíkum rekstri er best fyrir komið. Það er ekkert sem segir að ríkið sé betur til þess fallið en við.“

Spurður hvort sveitarfélagið hyggist koma beint að rekstri ferjunnar eða bjóða hann út segir Elliði hvort tveggja koma til greina, en þá með hagsmuni heimamanna í forgangi. „Okkar skylda er alltaf gagnvart íbúum í Vestmannaeyjum. Við erum ósátt við að þau lífsgæði sem fylgja góðum samgöngum séu skömmtuð úr hnefa og að menn séu á biðlistum árið um kring til að komast heim og heiman á meðan skipið er bundið,“ segir Elliði.

Að sögn Elliða eru ferðaþjónustan og aðrar atvinnugreinar í Vestmannaeyjum hin hliðin á sama teningi sem líður fyrir slæmar samgöngur. Vestmannaeyjar verða t.a.m. af miklum tekjum af erlendum og innlendum ferðamönnum vegna slæmra samgangna.

„Fjöldi ferða, uppbygging gjaldskrár, bókunarkerfið og þjónustustigið almennt gagnvart íbúum,“ nefnir Elliði sem dæmi um það hvað betur mætti fara í rekstri Vestmannaeyjaferju en tekur þó fram að ekki sé við rekstraraðila Herjólfs að saka, enda sé þar farið eftir samningum. „Það er okkar stjórnmálamanna að tryggja að gætt sé að hagsmunum íbúa í þessum samningum. Þeir sem hafa verið að gera þessa samninga fyrir hönd íbúa í Vestmannaeyjum þurfa ekki að nota þessa þjónustu. Þeir búa í lægri póstnúmerum þar sem verstu samgöngurnar eru traffík á næsta rauða ljósi.“

Elliði telur líklegt að samið verði við norsku bátasmiðjuna Fiskestrand um smíði nýrrar ferju og segir mögulegt að hún verði tilbúin sumarið 2018.