Sigursæll Yfir 98% fólks kusu einsog forsætisráðherrann Orban vildi.
Sigursæll Yfir 98% fólks kusu einsog forsætisráðherrann Orban vildi. — AFP
Börkur Gunnarssson borkur@mbl.is Nærri 43% tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu í Ungverjalandi um hvort ætti að samþykkja boð frá Evrópusambandinu um að taka við innflytjendum og af þeim sem greiddu atkvæði virðist sem hátt í 98% fólks hafi sagt nei.

Börkur Gunnarssson

borkur@mbl.is

Nærri 43% tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu í Ungverjalandi um hvort ætti að samþykkja boð frá Evrópusambandinu um að taka við innflytjendum og af þeim sem greiddu atkvæði virðist sem hátt í 98% fólks hafi sagt nei.

Viktor Orban, forsætisráðherra landsins, lýsti yfir sigri í gærkvöldi, enda hafði hann hvatt til þess að fólk segði nei.

Kosningin ekki bindandi

Aftur á móti er kosningin ekki bindandi þar sem ekki náðust yfir 50% kjósenda á kjörstað. Stjórnarandstaðan hafði hvatt til þess að fólk tæki ekki þátt í kosningunum eins og niðurstöður þeirra bera með sér. Fulltrúar stjórnvalda sem eru sáttir við niðurstöðuna segja hana siðferðislega og lagalega bindandi.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í Ungverjalandi segja að þátttakan í kosningunum hafi verið léleg og að það sýni að fáir Ungverjar styðji ríkisstjórnina. Fulltrúar stjórnvalda benda á ótrúlega skýra niðurstöðu þeirra sem tóku þátt.

Mikill flaumur fólks í fyrra

Á síðasta ári var Ungverjaland einsog þjóðbraut fyrir innflytjendur þegar vandinn náði hámarki. Yfir milljón manns á flótta ferðaðist yfir Balkanskagann og í gegnum Ungverjaland á leið sinni til Þýskalands og Skandinavíu.

Yfir milljón flóttamanna var fagnað í Þýskalandi eftir langa för sína og miklar ógöngur. Velviljinn sem þeim var sýndur í Þýskalandi hefur aðeins minnkað og nú eru pólitísk öfl sem eru andsnúin auknu flæði innflytjenda til Þýskalands að styrkjast.

Ungverjaland undir stjórn Orban hefur aldrei sýnt flóttamönnum sérstakan velvilja, í það minnsta ekki í samanburði við stjórn Þýskalands. Orban leiddi baráttu í þessum kosningum þar sem hann hvatti fólk til að segja nei takk.