Anna Lilja Þórisdóttir
annalilja@mbl.is
Fyrirspurnum til Leigjendaaðstoðar Neytendasamtakanna um hækkanir á leiguverði og önnur réttindi leigutaka hefur fjölgað talsvert undanfarin misseri. Ekki er óalgengt að leigjendur spyrji hvort leigusala sé heimilt að hækka leigu með engum fyrirvara og þá er líka nokkuð um að leigjendum sé sagt upp leigu sinni vegna þess að íbúðin á að fara í ferðamannaútleigu.
„Ég held að ein skýringin á þessari fjölgun fyrirspurna sé að fólk er almennt meðvitaðra um réttarstöðu sína,“ segir Guðrún Ósk Óskarsdóttir, sem starfar hjá Leigjendaaðstoðinni.
Hún segir að fyrirspurnirnar sem Leigjandaaðstoðinni berist séu af ýmsum toga. Ekki sé t.d. óalgengt að leigusali „mæti á tröppurnar“ og segist ætla að hækka leiguna samdægurs, að öðrum kosti verði leigjandi að flytja út. Stundum sé ástæða þessa sú að leigusalinn vilji leigja íbúðina sína út á Airbnb eða áþekkum leigusíðum fyrir ferðamenn. „Það er skýrt kveðið á um það í húsaleigulögum hvernig á að standa að hækkun á leiguverði. Ef leigusamningurinn er ótímabundinn er fresturinn til þess sex mánuðir, ef hann er tímabundinn er ekki gert ráð fyrir að hægt sé að hækka leiguna á leigutímanum,“ segir Guðrún.
Einnig berst Leigjendaaðstoðinni nokkuð af erindum frá fólki sem leigir ósamþykkt íbúðarhúsnæði í iðnaðarhúsnæði. „Þá er fólk að biðja okkur um að aðstoða sig við að fá húsaleigubætur. En þær eru einungis veittar þeim sem búa í húsnæði sem er samþykkt sem íbúðarhúsnæði, þannig að við getum lítið gert í síkum málum,“ segir Guðrún.
Fá trygginguna ekki til baka
Þá sé nokkuð um að leigjendum gangi illa að fá leigutryggingu sína endurgreidda eftir að þeir hafa flutt út. „Það er hægt að fara með slík mál fyrir kærunefnd húsamála, sem er ókeypis, en margir ákveða að gefa þetta eftir frekar en að fara í dómsmál sem getur verið dýrt og sumir telja að það svari ekki kostnaði. Annars er það þannig að flest samningssambönd vegna húsaleigu ganga vel fyrir sig en eins og gefur að skilja heyrum við hjá Leigjendaaðstoðinni aðallega af þeim málum þar sem illa gengur.“Spurð hvort það sé mat þeirra sem starfa hjá Leigjendaaðstoðinni að leigumarkaðurinn sé erfiðari nú en oft áður svarar Guðrún: „Það er erfitt að segja til um það en það er ljóst að framboðið er lítið og ekki hjálpar ferðamannaútleigan til.“