Fyrir helgi heilsaði Páll Imsland Leirliði á nótt hinna norðlægu ljósa og baðst afsökunar á ljótu rímorði: Andrés á Öndverðanesi auðvitað kallaðist Drési. Hann átti´ekki brók að birgja sinn lók en langvegginn þakinn með lesi.

Fyrir helgi heilsaði Páll Imsland Leirliði á nótt hinna norðlægu ljósa og baðst afsökunar á ljótu rímorði:

Andrés á Öndverðanesi

auðvitað kallaðist Drési.

Hann átti´ekki brók

að birgja sinn lók

en langvegginn þakinn með lesi.

Næsta dag heilsaði Páll á svölum degi, kærkominni tilbreytingu – sagði „vonandi er samt ekki hrollur í neinum“:

Kiðfætta daman á Krossi

klifraði´ á bak einu hrossi,

en nástaðan fóta

var fráleitt til bóta

og hún hætti því bölvaða hossi.

Ingibjörg Ingadóttir sendi mér skemmtilegt bréf: „Ég sé að enginn hefur sent þér vísu sem var í gamla Speglinum, og birt í Rauðku, úrvali úr honum, sem þú kannast sjálfsagt við. Faðir minn heitinn hafði gaman af því að fara með þessa vísu fyrir fólk og tékka á því hvernig það brygðist við, hvort það hefði húmor fyrir henni:

Einu sinni átti ég hest

það var nú gamall foli

Og það var lán að hann hafð' ekki horn

því þá hefði hann verið boli.“

Ingólfur Ómar hugsaði sér að eiga góða helgi:

Táp og kæti eykur enn

ákaft gæti kveðið.

Kverkar væta vil ég senn

vínið bætir geðið.

Þetta kveikti í Kristjáni Runólfssyni:

Mín eru búin morgunverk,

má nú byrja helgin.

þá skal hella kaffi í kverk,

og koníaki í belginn.

Sit ég hér og sötra mjöð,

sálar tæmi flórinn,

drekk ég fast í réttri röð,

rauðvín, hvítt og bjórinn.

Þetta féll Fíu á Sandi vel:

Alla gleði mikils met

mjög ég elska að svalla.

Kverkar væta vel ég get

vínið gleður alla.

Ólafur Stefánsson var ekki langt undan:

Þegar hallar að helgi,

held ég að dátt hún svelgi.

En er það nú ráð,

ef að er gáð:

Nýtt vín á notaða belgi?

Og bætti við: „Ó – góða helgi, Fía mín!“

Fía átti síðasta orðið:

Ekki mun ég óttast, því

ástandið er svona:

Ég er alveg eins og ný

enda hörku kona.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is