Myndskreytingar 17 listamenn sýna verk sín á sýningu um sjón- og frásagnarlist úr norrænum barna- og unglingabókmenntum í Norræna húsinu.
Myndskreytingar 17 listamenn sýna verk sín á sýningu um sjón- og frásagnarlist úr norrænum barna- og unglingabókmenntum í Norræna húsinu. — Ljósmynd/Norræna húsið
Into the Wind! er sýning á sjón- og frásagnarlist úr norrænum barna- og unglingabókmenntum, sem verður opnuð í Norræna húsinu í dag. Alls taka 17 listamenn frá níu löndum þátt í sýningunni.

Into the Wind! er sýning á sjón- og frásagnarlist úr norrænum barna- og unglingabókmenntum, sem verður opnuð í Norræna húsinu í dag. Alls taka 17 listamenn frá níu löndum þátt í sýningunni. „Norrænar bókmenntir og myndskreytingar hvetja börn til að hugsa og þróa ímyndunarafl sitt, hvetja þau til að vera hugrökk, óheft og frjáls í hugsunum sínum og tilfinningum, alveg eins og vindurinn! En það er einmitt þaðan sem titill sýningarinnar kemur,“ segir Sigurður Ólafsson, verkefnastjóri bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Sýningin er samstarfsverkefni kulturkind og Norræna hússins og var fyrst sett upp af kulturkind á Norrænum bókmenntadögum fyrir börn og ungmenni, í Berlín í sumar. „Á sýningunni má finna úrval þess besta sem er í gangi í norrænum myndskreytingum í barnabókmenntum í dag og stór hluti verkanna hefur verið tilnefndur til barnabókaverðlauna Norðurlandaráðs,“ segir Sigurður.

Á sýningunni má finna upphaflegar teikningar listamannanna, fyrir utan nokkrar sem eru tölvuteiknaðar. Allar bækurnar sem teikningarnar koma við sögu í eru einnig til sýnis og hægt er að blaða í þeim. „Þetta er sýning fyrir alla fjölskylduna og við reynum að stilla hæðina á myndunum þannig að þær séu ekki of lágar fyrir fullorðna en heldur ekki of háar fyrir börnin,“ segir Sigurður. Sýningin stendur yfir hér á landi til 29. október og mun svo ferðast áfram um víða veröld til ársins 2018. Sýningin verður opnuð klukkan 17, allir eru velkomnir og boðið verður upp á léttar veitingar. erla@mbl.is