Lokaumferðin
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
KR lauk ævintýralegum uppgangi sínum í Pepsi-deild karla í knattspyrnu þetta tímabilið á því að ná 3. sæti og öðru hinna dýrmætu Evrópusæta sem enn voru í boði í lokaumferðinni. Þetta gerði KR með því að vinna Fylki sem þar með féll. Stjarnan hélt 2. sæti deildarinnar með sigri á Víkingi Ólafsvík, sem hefði fallið ef Fylkir hefði unnið sinn leik. Breiðablik missti af Evrópusæti er liðið tapaði 3:0 fyrir Fjölni en Fjölnismenn hefðu þurft hjálp frá Ólafsvíkingum eða Fylkismönnum til að ná Evrópusæti.
KR-ingar höfðu fengið 9 stig í fyrstu 9 umferðum Íslandsmótsins þegar júlímánuður rann upp, og voru tveimur stigum frá fallsæti. Willum Þór Þórsson, í sumarfríi frá Alþingi, tók þá við liðinu og undir hans stjórn fékk KR 29 stig af 39 mögulegum, fleiri en nokkurt hinna liðanna í deildinni. KR hefur leikið í Evrópukeppni á hverju tímabili frá og með árinu 2009 og það breytist ekki á næsta ári.
Besti árangur dugði Fjölni ekki
Þessi ótrúlegi árangur hefði þó ekki dugað KR nema vegna þess að Breiðabliki mistókst að vinna Fjölni í Kópavogi. Þórður Ingason átti frábæran leik í marki Fjölnis sem skoraði þrjú mörk á lokamínútunum og náði sínum besta árangri í sögu félagsins. Fjölnir hefði hins vegar þurft eitt stig í viðbót til að komast í fyrsta sinn í Evrópukeppni, og getur svekkt sig á eins marks töpum gegn Stjörnunni og KR í lokaumferðunum.Breiðablik féll úr 3. sæti alla leið niður í það sjötta með tapinu. Liðið var um tíma það eina sem átti einhverja möguleika á að ná meisturum FH en Blikar fengu aðeins eitt stig í síðustu þremur leikjum sínum.
Stjarnan hafði komið sér í kjörstöðu með sigri á Fjölni í næstsíðustu umferðinni og gerði ekki nein mistök gegn Víkingi Ólafsvík í lokaumferðinni. Veigar Páll Gunnarsson kom inná í fyrri hálfleik vegna meiðsla Hilmars Árna Halldórssonar og skoraði tvö mörk í 4:1-sigri. Hrvoje Tokic skoraði mark Víkings úr vítaspyrnu og náði í bronsskóinn með sínu níunda marki á tímabilinu.
Uppi eftir þrjá mánuði án sigurs
Eftir frábæra byrjun á mótinu unnu Ólafsvíkingar ekki leik í júlí, ágúst eða september. Þeir geta prísað sig sæla að 21 stig skuli hafa dugað þeim til að halda sér uppi, en sá stigafjöldi dugði ekki árin 2011-2014.Fylkismenn höfðu færi á að bjarga sér, eftir að hafa verið í fallsæti í svo að segja allt sumar, en tókst það ekki. Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis, sem á ferli sínum sem atvinnumaður varð sex sinnum að sætta sig við fall úr deild, kvaðst taka „100% ábyrgð á þessu öllu“, eftir tapið gegn KR sem var síðasti naglinn í kistu Fylkis.
Fylkir leikur því í 1. deild á næsta ári en það hefur liðið ekki gert síðan árið 1999. Aðeins KR hafði spilað lengur samfleytt í efstu deild, en FH er nú það lið sem spilað hefur næstlengst samfleytt í efstu deild, eða frá og með árinu 2001.
Valsmenn höfnuðu í 5. sæti, fjórða árið í röð, með 1:0-sigri á ÍA. Skagamenn náðu næstmesta stigafjölda sem þeir hafa náð frá fjölgun liða í úrvalsdeild í tólf árið 2008, eða 31 stigi.
Íslandsmeistarar FH enduðu með 43 stig, en þeir gerðu 1:1-jafntefli við ÍBV í lokaumferðinni. Þó að FH hafi tryggt sér titilinn fyrir hálfum mánuði er þetta minnsti stigafjöldi meistara í 12 liða deild. Eyjamenn þurftu stig til að þurfa ekki að treysta á úrslit í öðrum leikjum, og náðu því.
Víkingur Reykjavík komst upp fyrir ÍA í 7. sæti með 2:1-sigri á botnliði Þróttar R., sem þegar var fallið. Tvö landsbyggðarlið leysa Reykjavíkurliðin Þrótt og Fylki af hólmi, eða KA og Grindavík. Fimm af 12 liðum úrvalsdeildarinnar á næstu leiktíð verða því staðsett utan höfuðborgarsvæðisins.