Hugsjónin á að vera hornsteinn stjórnmálanna. Þegar ákvarðanir eru teknar á Alþingi sem varða alla hina í samfélaginu sé það gert með ákveðið endatakmark í huga. Allar ákvarðanir séu miðaðar við það hvert samfélagið á að stefna.

Hugsjónin á að vera hornsteinn stjórnmálanna. Þegar ákvarðanir eru teknar á Alþingi sem varða alla hina í samfélaginu sé það gert með ákveðið endatakmark í huga. Allar ákvarðanir séu miðaðar við það hvert samfélagið á að stefna.

Er stefnt að auknu frelsi fyrir fólkið, því treyst til að taka eigin ákvarðanir og hafi svigrúm frá ríkisvaldinu til að elta drauma sína á Íslandi? Eða er stefnt að frekari forræðishyggju, þar sem ríkið hefur hendur í nær öllum þáttum mannlegs lífs, hefur vit fyrir þegnum sínum og býr til ástand þar sem enginn má skara fram úr því allir verða að vera jafnir — sælir í sameiginlegri eymd? Eða er jafnvel stefnt að einhvers konar gullnum meðalvegi sem ná á til breiðari hóps?

Kjósandinn á að geta staðið frammi fyrir skýrum valkostum þegar hann gengur til kosninga og velur hvert hann vill stefna, í hvernig samfélagi hann vill að börnin sín alist upp í. Hann á að geta treyst því að þeir stjórnmálaflokkar sem boða ákveðna stefnu standi svo við hana þegar á hólminn er komið, þegar fulltrúar flokksins standa í ræðustól Alþingis og hagsmunahóparnir liggja við fótskör þeirra, allir með mismunandi kröfur um alls konar. Þá á kjósandinn að geta verið rólegur í hjarta sínu með að hinn kjörni fulltrúi haldi sig við hugsjónir sínar og því sem hann lofaði að stefna að í aðdraganda kosninganna.

Kjósandinn ætti að geta verið viss um að stjórnmálaflokkur sem lofar að standa vörð um einstaklingsfrelsi, viðskipta- og athafnafrelsi, tryggi það á öllum stigum samfélagsins. Málaflokkarnir sem stjórnmálamenn hafa á borði sínu eru vissulega ekki allir jafnaðkallandi eða stórir en hin svokölluðu „litlu frelsismál“ mega ekki gleymast. Því litlu málin verða oft þau stóru þegar betur er að gáð.

Tryggja verður til dæmis að ríkisvaldið standi ekki í verslunarrekstri og að menn fari ekki í fangelsi við það eitt að selja vínflösku úti á götu. Að þeir sem fæðast sem annað kyn en þeir upplifa sig þurfi ekki, frekar en aðrir, að skrá kyn sitt hjá ríkisstofnun — að ríkið setji ekki merkimiða á alla einstaklinga og flokki þá niður, bæði eftir nafni og kyni.

Að fólk af sama kyni geti átt barn án þess að fara í fjölmiðlastríð við ríkisvaldið til að fá nafn beggja foreldra, af sama kyni, á fæðingarvottorðið. Að fangelsin séu ekki fyllt af fólki sem ákvað að neyta eins vímuefnis í stað annars, sem ríkinu var ekki þóknanlegt — kannabis en ekki sígarettur. Að allir landsmenn séu ekki þvingaðir til að greiða fyrir áskrift að ákveðinni sjónvarpsstöð sem ríkisvaldið heldur úti. Að fólki sé einfaldlega frjálst að velja hvort það greiðir fyrir Útsvarið eða frönsku kvikmyndina frá 8. áratugnum.

Það er gott að hafa hugsjónirnar í huga, hvort sem þær eru litlar eða stórar, þegar gengið verður til kosninga í lok mánaðarins — bæði frambjóðendur og kjósendur. laufey@mbl.is

Laufey Rún Ketilsdóttir

Höf.: Laufey Rún Ketilsdóttir