Kolbrún Sveinsdóttir fæddist á Akureyri 24. janúar 1935. Hún lést á öldrunarheimilinu Lögmannshlíð 22. september 2016.

Í barnæsku og fram á fullorðinsár bjó hún lengst af í Norðurgötu 60. Foreldrar hennar voru Anna Sigurðardóttir og Sveinn Bragi Brynjólfsson. Systkini Kolbrúnar eru Kristín, f. 10. október 1938, d. 27. janúar 2009; Brynjólfur Viðar, f. 17. apríl 1941, d. 10. apríl 1963; Emilía Sigríður, f. 19. október 1943; Árný Petra, f. 5. nóvember 1950; Baldvin Þröstur, f. 29. janúar 1953.

Hinn 12. maí 1956 giftist Kolbrún Stefáni Hauki Jakobssyni, f. 31. október 1932. Foreldrar Stefáns Hauks voru Matthildur Stefánsdóttir og Jakob Gíslason. Börn Kolbrúnar og Stefáns Hauks eru: 1) Sveinn Ævar, f. 12. febrúar 1956, maki Bjargey H. Pétursdóttir, þau eiga fjögur börn. 2) Eiður, f. 18. desember 1965, maki Dagbjört H. Eiríksdóttir, þau eiga þrjú börn. 3) Matthildur, f. 17. desember 1968, maki Tómas Ólafsson, þau eiga fjögur börn. 4) Anna, f. 11. september 1970, maki Hilmar M. Baldursson, þau eiga þrjú börn. 5) Tinna, f. 12. október 1971, hún á þrjú börn. Kolbrún og Stefán Haukur eiga átta barnabarnabörn.

Skólaganga Kolbrúnar hófst í Barnaskóla Akureyrar, þaðan lá leið hennar í Gagnfræðaskóla Akureyrar og á árunum 1954-1955 var hún í Húsmæðraskólanum á Laugalandi. Á skólagöngu sinni eignaðist hún traustar og góðar vinkonur sem hittust reglulega og rifjuðu upp góða tíma. Um ævina vann Kolbrún mörg og ólík störf, meðal annars vann hún í Vöruhúsinu, Sjálfstæðishúsinu, á Sambandsverksmiðjunum, í Blómabúðinni Akri og á Punktinum.

Kolbrún verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju í dag, 3. október 2016, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Elsku mamma mín, dýrmæta perlan mín. Ég sit hér ein í kyrrðinni við eldhúsborðið þitt, drekk kaffið mitt og hugsa til þín. Alveg eins og við gerðum þegar við áttum okkar dýrmætu gæðastundir, saman á hverjum degi. Nú ertu farin. Tárin streyma niður kinnarnar þegar ég kalla fram góðu minningarnar um þig sem ég geymi á sérstökum stað í hjartanu.

Samband okkar var einstakt. Það einkenndist af óendanlegri væntumþykju, örlæti, gagnkvæmri virðingu, gleði og trausti. Skilningsrík varstu og einstaklega næm á líðan og tilfinningar annarra. Ég var svo heppin að eiga þig að og þú varst mér ekki eingöngu góð móðir heldur líka vinkona og vinátta okkar var mér afar dýrmæt.

Það er sárt að sakna og tilhugsunin að nú sé komið að hinstu kveðju er mér óbærileg en ég ylja mér við allar góðu stundirnar, kærleikann, hlýjuna, faðmlögin, gleðina, brosin, viskuna og ég tala nú ekki um allan stuðninginn sem þú hefur veitt mér í gegnum lífið. Fallegu orðin þín til mín og allt það sem þú hefur kennt mér mun lýsa mér áfram um lífsins veg. Minningin um góða móður og einstaka vinkonu lifir og skín skært eins og geislar sólarinnar.

Nú ert þú ljósið sem býr í hjarta mínu að eilífu.

Elsku mamma, takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér, ég elska þig af öllu hjarta.

Til himnaríkis ég sendi,

þér kveðju mamma mín.

Á því virðist enginn endi,

hve sárt ég sakna þín.

Þú varst mín stoð og styrkur,

þinn kraftur efldi minn hag.

Þú fældir burtu allt myrkur,

með hvatningu sérhvern dag.

Nú tíminn liðið hefur,

en samt ég sakna þín.

Dag hvern þú kraft mér gefur,

ég veit þú gætir mín.

Við sjáumst, skvís.

Þín

Tinna.

Kolbrún Sveinsdóttir, eða amma Kolla, eins og við öll kölluðum hana. Amma Kolla var ekki bara amma, heldur var hún besta vinkona okkar. Amma Kolla var einstök manneskja, það var enginn eins og hún. Við eigum svo endalaust af dýrmætum minningum um ömmu sem munu aldrei gleymast, til dæmis þegar við vorum að gista hjá henni og fengum alltaf allt sem við vildum í morgunmat, allt sem við fengum ekki heima. Hún kenndi okkur systrum að prjóna, meðal annars, og eftir það fóru mörg kvöld í það.

Frá því að við munum eftir okkur þá var alltaf farið í sumarbústað einu sinni á ári og var allt gert til þess. Þar hittumst við öll stórfjölskyldan og nutum þess að vera saman. Síðan eru það jólin, þau voru í miklu uppáhaldi hjá ömmu, hittumst alltaf hjá henni og afa á jóladag. Þessi jól verða mjög skrítin, hittast á jóladag og engin amma þar.

Allar þær hefðir sem amma var með, það er allt ógleymanlegt og ætlum við að reyna að halda þeim hefðum eins lengi og við getum. Ömmu þótti einstaklega vænt um sína og gerði alltaf allt sem hún gat til þess að öðrum liði vel, hún hafði einstakt hjartalag. Við systkinin þrjú erum óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að hafa ömmu í öll þessi ár, núna vitum við samt að henni líður vel og komin á góðan stað. Amma, við kveðjum þig með tár í augum en gleði í hjarta yfir öllu sem þú gerðir fyrir okkur. Erum endalaust þakklát fyrir þau forréttindi að hafa fengið að kalla þig ömmu. Amma, við elskum þig.

Sigrún Ósk, Eva Björk og

Viðar Már.

Hún amma Kolla var kona sem kunni ráð við öllu og var alltaf til staðar; hún vissi af hverju sultan hljóp ekki, hún bjargaði prjónaklúðri blindandi og vissi nákvæmlega hvað átti að segja og hvenær.

Alla tíð var hún til staðar fyrir okkur og var hún sú sem maður gat leitað til í neyð, sama hve stórt eða lítið vandamálið kunni að vera. Hún skapaði með okkur fullt af ánægjulegum og ómetanlegum minningum; allt frá skemmtilegri utanlandsferð, ánægjulegum fjölskyldustundum og einhverju léttklikkuðu eins og að stökkva afar óvænt ofan í heitan pott í öllum fötunum bara til að skemmta okkur.

Við gátum hlegið mikið með henni ömmu okkar en stundum var nú ekki annað hægt en að hlæja að henni líka enda stundum alveg einstaklega seinheppin og auðtrúa á hinar ólíklegustu og skrautlegustu lygasögur. Í eitt skipti tókst henni að ganga svo harkalega á gler þegar hún ætlaði að drífa sig inn í verslun að varaliturinn hennar sat fastur á glerinu og vakti það mikla kátínu hjá okkur og henni, enda virtist hún nú oft hafa gaman af vitleysunni í sjálfri sér.

Í utanlandsferð sem hún fór með okkur í fengum við að sjá hlið á henni sem við höfðum ekki séð áður, hún virtist fá aukinn kraft og hraða við það að stíga inn í verslanir og gat keypt jólagjafir fyrir alla á mettíma. Henni virtist nú ekki leiðast það að versla en það var fátt sem henni fannst betra en sólin. Það mátti ekki sjást smá sólarglæta þá var hún mætt í sólstólinn, það hefði lítið komið á óvart ef maður hefði séð hana í sólbaði í miðjum snjóstormi ef það hefði smágeisli frá sólinni sloppið í gegn.

Hún var afbragðs bakari og bakaði heimsins bestu skúffukökur, þó svo að hún hafi nú óvart sett piparmyntudropa í stað vanilludropa í þetta eina skipti. Djúsísinn sem hún gerði sló öll met og enginn blandar þá eins vel og hún gerði. Trúið okkur, við erum enn að reyna!

Amma elskaði börn, barnabörn og barnabarnabörn sín afar heitt og gerði allt sem hún gat fyrir þau. Það fengu þó allir harða samkeppni þegar hún eignaðist hundinn Trygg fyrir nokkrum árum. Hann hefði ekki getað óskað sér betra heimilis og eiganda en hennar ömmu og við áttum það til að brosa út í annað þegar við urðum vitni að því hve mikið hún dekraði og nostraði við hann. Þau urðu svo háð hvort öðru og gátu varla án hvort annars verið. Okkur fannst nú ekki lítið fyndið að hún hafði meiri áhyggjur af honum Trygg sínum þegar hún þurfti að skilja hann eftir heldur en afa ef hann varð eftir heima.

Það að hún sé farin skilur eftir stórt skarð í okkar hjörtum og mikinn söknuð. Það verður ekki eins án hennar. Það getur enginn skreytt eins og hún fyrir jólin eða sett jafn oft og snyrtilega á sig varalit á hverjum degi eins og hún gerði.

Við horfum til baka svo sæl og svo þakklát fyrir allar stundirnar og minningarnar sem við áttum með henni ömmu okkar.

Hvíldu í friði, elsku amma, og engar áhyggjur, við pössum upp á hann Trygg þinn.

Ólafur Haukur, Lena, Víðir Steinar og Helena Arnbjörg.