Mikill tilfinningalegur sársauki fylgir því oft að skilja við þann sem maður hefur tengst djúpum tilfinningaböndum og hefur ráðgert að búa með þar til yfir lyki. Ekki er aðeins um brostnar væntingar og erfiðar tilfinningar að ræða eins og höfnun, sektarkennd og reiði heldur fylgir í kjölfarið tilfinningalegt uppgjör, skipting á eignum og ótti við hið óþekkta. Í ofanálag, ef skilnaður á rætur að rekja til framhjáhalds eða langvarandi sambúðarvanda þá eru samskiptin eftir skilnað svo tilfinningaþrungin að eins konar tilfinningastríð getur skapast milli foreldra sem bitnar of oft illilega á börnum þeirra.
Á hinn bóginn, þegar góðir foreldrar eru spurðir hvað skipti þá mestu máli í lífinu, þá svara þeir án undantekninga að það séu börnin og fullyrða án nokkurs vafa að neikvæðar tilfinningar hvors til annars eigi alls ekki að bitna á börnunum.
Ólgusjór tilfinninganna
Það þýðir einfaldlega að ef samskiptaörðugleikar eru á milli foreldra, ósamkomulag um umgengni eða forsjá þá eiga foreldrarnir, alveg sama hvað gengur á, að beita öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir að börnin finni fyrir þeirri deilu. Það geta góðir foreldrar hins vegar oft ekki gert, heldur týna þeir sér í ólgusjó neikvæðra tilfinninga og í raun hegða sér gegn betri vitund. Góðir foreldar eru í alveg jafnmikilli hættu og annað gott fólk að ráða ekki við þær tilfinningar sem krauma undir niðri og springa út þegar ákveðnar, íþyngjandi tilfinningalegar aðstæður eru fyrir hendi.Tilfinningar eru nefnilega raunveruleg fyrirbæri. Tilfinningar fæðast og þær deyja eftir því hvernig við hegðum okkur í samskiptum við annað fólk og tökumst á við þær. Að auki lifa þær og dafna eftir því hvaða viðhorf við höfum til lífsins almennt og þeirra sem við hleypum að okkur og viljum eða vildum deila lífinu með. Tilfinningar leynast í huga okkar og líkama ef við ráðumst ekki að rótum þeirra. Í aðþrengdum aðstæðum þá munu þær brjótast út fyrr eða síðar og breyta hegðun góðra foreldra, eins og hjá öllum öðrum vel meinandi og góðum manneskjum. Þegar það gerist þá finnst góðum foreldrum að þeir hafi svikið sig sjálfa og börnin sín og fyllast jafnvel nýjum óþægilegum tilfinningum eins og samviskubiti, kvíða, þunglyndi og ósátt við sig og fyrrverandi maka sem leiðir af sér vítahring ennþá erfiðari samskipta sem aftur kemur niður á börnum þeirra.
Tengslanetið
Hvað skal til bragðs taka? Góðir foreldrar þurfa að vera mjög meðvitaðir um að tilfinningar eru raunverulegar og mikilvægt er að vinna úr þeim. Helst áður en þær hafa slæm áhrif á þá sjálfa og börnin þeirra. Ef góðum foreldrum tekst ekki að leysa úr tilfinningum sínum þá ættu þeir að finna einhvern sem getur skapað þannig skilyrði að tilfinningarnar fái ekki að ráða ferðinni í samskiptum við fyrrverandi maka. Gott er að leita sér aðstoðar þriðja aðila, til dæmis sáttamiðlara eða einhvers í tengslanetinu sem þeir líta upp til og treysta til að sýna hlutleysi og skynsemi. Einhvers sem getur veitt stuðning og hjálpað til að skapa skilyrðin til að finna gagnlegar lausnir á vandanum sem ekki koma niður á þeim sjálfum og börnum þeirra.Góðir foreldrar vilja væntanlega halda áfram að vera góðir foreldrar og þá er mikilvægt að hafa í huga að samskipti þeirra í milli og framkvæmd uppgjörsins spilar gríðarlega stórt hlutverk.
Heilsustöðin, sálfræði- og ráðgjafarþjónusta, Skeifunni 11a, Reykjavík.
Hafsteinn Gunnar Hafsteinsson sáttamiðlari