Edda Heiðrún Backman, leikari, leikstjóri og myndlistarmaður, lést á Landspítalanum í Fossvogi 1. október, 58 ára að aldri.
Edda Heiðrún fædd-ist á Akranesi 27. nóvember 1957. Foreldrar hennar voru Jóhanna Dagfríður Arnmundsdóttir og Halldór Sigurður Backman. Hún lauk stúdentsprófi frá MS 1978 og leikaraprófi frá Leiklistarskóla Íslands 1983.
Edda Heiðrún átti farsælan feril sem leikari fram til ársins 2004 en þá hafði hún greinst með MND-sjúkdóminn, sem varð þess valdandi að hún hætti að leika. Þá sneri hún sér að leikstjórn bæði í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Árið 2007 opnaði Edda blómabúðina Súkkulaði og rósir og árið 2008 hóf hún að mála með munninum, bæði vatnslitamyndir og olíu og haustið 2009 var Eddu boðin aðild að alþjóðlegum samtökum munn- og fótmálara, The Association of Mouth and Foot Painters. Á ferli sínum sem myndlistarmaður hélt hún fjölda sýninga, í Reykjavík og á landsbyggðinni auk þess sem hún átti myndir á sýningum erlendis.
Edda Heiðrún gerðist ötul baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks. Ásamt Hollvinasamtökum Grensás stóð hún fyrir landssöfnun til uppbyggingar og endurbóta á Grensásdeild undir yfirskriftinni Á rás fyrir Grensás. Þar söfnuðust á annað hundrað milljónir króna.
Þá var Edda Heiðrún mikill talsmaður umhverfisverndar og stofnaði félagsskapinn Rödd náttúrunnar snemma á þessu ári, sem er ætlað það hlutverk að veita náttúrunni rödd og réttindi.
Edda Heiðrún hlaut fjölda viðurkenninga fyrir list sína. Þrisvar sinnum fékk hún Íslensku sviðslistarverðlaunin, þ.á m. heiðursverðlaun Grímunnar. 2003 hlaut hún Íslensku kvikmyndaverðlaunin, Edduna, 2006 var hún borgarlistamaður Reykjavíkur og 2008 samþykkti Alþingi hana í hóp heiðurslistamanna.
Edda Heiðrún lætur eftir sig tvö börn, Arnmund Ernst leikara og Unni Birnu menntaskólanema.