Í kvöld verða haldnir styrktartónleikar fyrir Stefán Karl Stefánsson leikara og fjölskyldu hans á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Stefán Karl glímir við erfið veikindi sem kalla á kostnaðarsamar aðgerðir og meðferðir. Þjóðleikhúsið og starfsmenn þess standa að tónleikunum. Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri segir að vinir og samstarfsfólk Stefáns Karls hafi tekið sig saman og skipulagt þessa styrktartónleika og viljað með því sýna stuðning sinn til hans og fjölskyldunnar. Þeir sem koma fram í kvöld eru Bubbi Morthens, Ný dönsk, Úlfur Úlfur, Salka Sól, Laddi, Gói, Hansa og Selma, Jón Ólafsson, Valgeir Guðjónsson og Stuðmenn. Kynnir verður Edda Björgvinsdóttir.
Að sögn Ara voru margir listamenn sem vildu koma að tónleikunum. Hann segir alla sem haft hafi verið samband við vilja leggja sitt af mörkum og nefnir hann t.d. auglýsingastofuna sem hannaði plakatið fyrir tónleikana og veitingarnar sem verða seldar á tónleikunum ásamt öllum listamönnunum sem koma fram og gefi vinnu sína. ,,Allir listamennirnir sem beðnir voru að koma fram á tónleikunum tóku strax vel í það og margir þeirra hafa unnið náið með Stefáni Karli. Við hefðum getað haft tónleikana miklu stærri og lengri því það voru svo margir sem vildu leggja okkur lið en við þurftum að loka dagskránni einhvers staðar og hafa á henni eitthvert form,“ segir Ari.
Nefnir hann að Stefán Karl sé mikil þjóðargersemi sem sé ekki bara góður leikari heldur líka söngvari. Einnig hafi hann opnað umræðuna um einelti á sínum tíma, stofnað samtök í kringum það og sé mikill hugsjónamaður á mörgum sviðum. bj@mbl.is