Gleði Dele Alli fagnar marki sínu fyrir Tottenham Hotspur í gær.
Gleði Dele Alli fagnar marki sínu fyrir Tottenham Hotspur í gær. — AFP
Tottenham Hotspur og Manchester City voru einu taplausu liðin í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla áður en liðin mættust í gær. Tottenham fór með 2:0 sigur af hólmi og er þar af leiðandi eina taplausa liðið í deildinni.

Tottenham Hotspur og Manchester City voru einu taplausu liðin í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla áður en liðin mættust í gær.

Tottenham fór með 2:0 sigur af hólmi og er þar af leiðandi eina taplausa liðið í deildinni. Fyrra mark Tottenham var sjálfsmark Aleksandar Kolarov og Dele Alli skoraði seinna mark liðsins.

Pep Guardiola þurfti því að sætta sig við sitt fyrsta tap í mótsleik sem knattspyrnustjóri Manchester City, en City hafði leikið ellefu mótsleiki án ósigurs áður en Tottenham sagði stopp í gær.

Leikur liðanna var hraður og skemmtilegur, en það voru heimamenn sem voru sterkari aðilinn í leiknum. Tottenham-menn gáfu leikmönnum Manchester City engan frið þegar þeir voru að reyna að byggja upp sóknir sínar.

Þá sóttu leikmenn Tottenham Hotspur af leifturhraða og útsjónarsemi þegar þeir unnu boltann.

Tottenham minnkaði forskot City á toppi deildarinnar í eitt stig með þessum sigri.

Liverpool, sem lagði Gylfa Þór Sigurðsson og félaga hans hjá Swansea City að velli, 2:1, á laugardaginn er í fjórða sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Manchester City. Manchester United mistókst að blanda sér af fullum þunga í toppbaráttuna, en liðið gerði 1:1 jafntefli við Stoke City í gær. Manchester United er fimm stigum á eftir nágrönnum sínum, Manchester City.

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hans hjá Burnley voru grátlega nærri því að næla sér í stig gegn Arsenal, en vafasamt sigurmark Laurents Koscielny á lokaandartökum leiksins tryggði Arsenal stigin þrjú. Arsenal skaust með sigrinum upp í þriðja sæti deildairnnar, en liðið er tveimur stigum á eftir Manchester City.