Þórður Á. Hjaltested
Þórður Á. Hjaltested
Laufey Rún Ketilsdóttir laufey@mbl.is „Frumvarpið endurspeglar ekki samkomulag aðila að okkar mati. Það tryggir ekki rétt allra núverandi sjóðsfélaga eins og samkomulagið gerði ráð fyrir,“ segir Þórður Á.

Laufey Rún Ketilsdóttir

laufey@mbl.is

„Frumvarpið endurspeglar ekki samkomulag aðila að okkar mati. Það tryggir ekki rétt allra núverandi sjóðsfélaga eins og samkomulagið gerði ráð fyrir,“ segir Þórður Á. Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands (KÍ), en stjórn sambandsins sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hún segist ekki treysta sér til að styðja nýtt frumvarp um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna enda telji hún lagafrumvarpið skerða réttindi félagsmanna þvert á undirritað samkomulag.

Stjórnin skorar á alþingismenn að hleypa frumvarpinu ekki í gegnum Alþingi í núverandi mynd.

Þann 19. september skrifuðu KÍ, BHM og BSRB undir samkomulag við ríki og sveitarfélög um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Lykilatriði í því samkomulagi var að réttindi núverandi sjóðsfélaga skyldu vera jafnverðmæt fyrir og eftir breytingar á skipan lífeyrismála og að réttindi núverandi sjóðsfélaga yrðu tryggð óbreytt. Frumvarpið tryggi hins vegar ekki þetta markið, að sögn Þórðar. Stjórn KÍ hafi því farið fram á það að málinu yrði frestað fram yfir kosningar svo tryggja mætti betur að markmið og forsendur samkomulagsins næðu fram að ganga í frumvarpinu. Því var hafnað í gærmorgun. „Fulltrúar ráðuneytisins segja að þetta sé komið í þinglega meðferð og segjast ekki geta beitt sér í málinu,“ segir Þórður en nú sé því reynt að höfða til alþingismanna.

Fara fyrir fjárlaganefnd

Spurður hvaða ástæður fulltrúar ríkisins hafi gefið fyrir því að umrædd atriði hafi ekki fengið stað í frumvarpinu segir hann lítið hafa verið um svör. „Það hefur ekki komið nægilega skýrt fram að okkar mati,“ bætir hann við en frumvarpið hafi verið útbúið af lögfræðingum fjármálaráðuneytisins og lagt fyrir þingið degi eftir að samkomulagið var undirritað.

Hin bandalögin sem stóðu að samkomulaginu, BHM og BSRB, hafa ekki gefið það út hvort þau hyggjast styðja frumvarpið eða ekki að svo stöddu en í vikunni fara bandalögin þrjú fyrir fjárlaganefnd sem hefur nú frumvarpið til umfjöllunar.

„Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda því þá er verið að keyra þetta í gegn í óþökk okkar og ekki verið að uppfylla ákvæði samkomulagsins,“ segir Þórður inntur eftir því hvaða áhrif það hefði ef frumvarpið færi óbreytt í gegnum þingið.