Sigurvegari Recep Erdogan er af mörgum talinn vera að notfæra sér stöðu sína til að ofsækja pólitíska andstæðinga sína og styrkja stöðu sína.
Sigurvegari Recep Erdogan er af mörgum talinn vera að notfæra sér stöðu sína til að ofsækja pólitíska andstæðinga sína og styrkja stöðu sína. — AFP
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Tyrkneska lögreglan handtók bróður Fethullah Gülen í gær en hann er sakaður um að bera ábyrgð á valdaránstilrauninni í júlí síðastliðnum.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Tyrkneska lögreglan handtók bróður Fethullah Gülen í gær en hann er sakaður um að bera ábyrgð á valdaránstilrauninni í júlí síðastliðnum.

Síðan valdaránstilraunin fór út um þúfur hafa á bilinu 35 - 47 þúsund manns verið handteknir í Tyrklandi og sakaðir um að tengjast valdaránstilrauninni. Mörgum finnst talan vera ansi há þegar hugsað er til þess hversu máttlaus og misheppnuð valdaránstilraunin var. En hún kostaði engu að síður á þriðja hundrað manns lífið.

Eigurnar gerðar upptækar

Gülen dvelur í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum. Gülen var áður stuðningsmaður Erdogan á leið hans til valda, en svo kom upp ágreiningur þeirra á milli sem varð harðvítugur.

Bróðir Fethullah Gülen flúði aftur á móti ekki land. Hann heitir Kutbettin Gülen og var handtekinn eftir að lögreglu barst ábending um hvar hann væri að finna. Var hann á heimili ættingja í Gaziemir-sýslu í Izmir-héraði. Hann er fyrstur af Gülen systkinunum sem er handtekinn í tengslum við valdaránstilraunina.

Hann er sakaður um aðild að vopnuðum vígasamtökum, segir í frétt tyrknesku ríkisfréttastofunnar.

Kutbettin er í yfirheyrslum hjá hryðjuverkadeild lögreglunnar og eigur hans hafa verið gerðar upptækar.

Bróðir hans, sem tyrknesk stjórnvöld hafa sakað um að vera höfuðpaurinn í valdaránstilrauninni, býr aftur á móti enn í Bandaríkjunum og hafa yfirvöld þar ekki sýnt nein merki um að þau ætli að framselja hann til Tyrklands, þótt löndin séu bandamenn innan NATO.