Halldór Halldórsson fæddist 2. júní 1932 að Hólmum í Hólmasókn, S-Múlasýslu.
Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 26. september 2016.
Foreldrar hans voru hjónin Halldór Guðnason bóndi og verkamaður, f. 1897, d. 1983, og Ragnheiður Haraldsdóttir húsfreyja og verkakona, f. 1898, d. 1980. Alsystkini Halldórs eru: Haraldur, f. 1929, d. 2005, Gunnar Emil, f. 1930, d. 1996, Gerða, f. 1934, Rúnar Sigurður, f. 1937. Hálfsystkini eru Ólafía Stefánsdóttir, f. 1919, d. 1999, Sigurbjörg Stefánsdóttir, f. 1922, d. 1945, Jóna Kolbrún Halldórsdóttir, f. 1951. Árið 1958 giftist hann Björgu Hafsteinsdóttur, f. 1934. Foreldrar hennar voru Hafsteinn Björnsson fulltrúi, f. 1910, d. 1992, og Ingibjörg Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 1907, d. 1997. Björg og Halldór eiga þrjá syni: Hafstein, f. 1958, Halldór Ragnar, f. 1960, og Gunnar Inga, f. 1966. Barnabörn og barnabarnabörn eru 15 talsins.
Þegar Halldór var sex ára fluttist fjölskyldan til Eskifjarðar. Hann tók skipstjórapróf árið 1953 og var stýrimaður eða skipstjóri á ýmsum bátum. Hann lenti í skipskaða við Færeyjar árið 1957 og var næstu þrjú árin í lögreglunni á Keflavíkurflugvelli. Sjórinn sótti á, fór hann aftur til sjós, var mikil aflakló og landsþekktur sem Dóri sterki. Hann var ævintýragjarn og starfaði sem kennari við fiskveiðar og netagerð í Pusan í S-Kóreu, sem skipstjóri á fiskirannsóknarskipi frá Mobasa í Kenýa og sem ráðgjafi og skipstjóri í Eþíópíu, Rússlandi, Hollandi, Bandaríkjunum, Kanada og Indónesíu. Halldór var mikill íþróttagarpur og átti ýmis met í t.d. spjótkasti og keilu. Hann var góður vísnahöfundur og liggja margar góðar vísur eftir hann.
Útför Halldórs fer fram frá Lindakirkju í dag, 3. október 2016, klukkan 15.
Á mánudagskvöldið þegar norðurljósin dönsuðu og héldu sýningu yfir Reykjavík kvaddi hann tengdapabbi og lagði af stað í sína hinstu för. Það var gaman að tengjast þessum manni sem var ekki byggður úr sama efniviði og við hin. Stór og sterkur, hamhleypa til vinnu og keppnismaður mikill. Það var ekki að ástæðulausu að menn sem störfuðu með honum kölluðu hann Dóra sterka. Þessum sterka manni með hvíta makkann fylgdi svo ljúf lund og smá stríðni, hann hafði gaman af að því að stríða rauðhærða skottinu sem batt trúss sitt við miðjusoninn, skellti fram vísum og tók við mig dansspor því maðurinn kunni sko að dansa. Hann kom til dyranna eins og hann var klæddur og lét menn heyra það ef honum mislíkaði og hrósaði þegar það átti við, það var ekkert kjaftæði í kringum þessa hetju hafsins og aflakló. Ég kveð nú afa Dóra í bili og ylja mér við góðar minningar um skemmtilegar stundir í þessi tæpu 40 ár sem eru liðin frá fyrstu kynnum.
Anna Sigríður Magnúsdóttir.