Sviðsljós
Anna Lilja Þórisdóttir
annalilja@mbl.is
Gleypi barn hnapparafhlöðu getur það valdið varanlegum skaða, jafnvel dauða. Þessar rafhlöður verða sífellt algengari og þær innihalda litíum sem, að sögn Herdísar Storgaard, framkvæmdastjóra Miðstöðvar slysavarna barna, gerir þær talsvert skaðlegri en aðrar gerðir rafhlaðna komist þær í munn og maga barna. Ekki er vitað til þess að börn hér á landi hafi skaðast alvarlega vegna þessa.
Hnapparafhlöður er m.a. að finna í úrum, eldhús- og baðvogum og rafmagnskertum. Þá eru þær í mörgum leikföngum og fjarstýringum. Í síðustu viku vakti breski barnaspítalinn Great Ormond Street athygli breskra fjölmiðla á þeirri hættu sem börnum getur stafað af hnapparafhlöðum. Tilefni þess var að læknar og hjúkrunarfólk spítalans urðu vör við mikla aukningu á tilfellum þar sem börn höfðu gleypt rafhlöðurnar. Í frétt á vef spítalans kemur fram að að 60% aukning hafi orðið á þessum tilfellum síðastliðið ár, undanfarið ár hafi eitt barn á viku komið á sjúkrahúsið vegna þessa en fyrir fimm árum var það eitt barn á ári. Herdís segir fyllstu ástæðu til að vekja reglulega athygli á þeim skaða sem rafhlöðurnar geta valdið börnum. „Þessar rafhlöður eru komnar í miklu fleiri hluti sem eru algengir á heimilum en áður var. Fjarstýringar verða sífellt þynnri og minni og í þeim eru oft hnapparafhlöður. Það er nóg að fjarstýring detti í gólfið, þá getur rafhlaðan hrokkið úr, jafnvel týnst og fólk veltir því kannski ekkert mikið fyrir sér. En barn getur fundið hana löngu síðar. Svo eru þær oft í rafmagnskertum sem margir vilja nota í skammdeginu frekar en önnur kerti.“
Herdís gerði könnun síðasta vetur á rafhlöðuhulstri rafmagnskerta. Niðurstaðan var að þau væru flest mjög vönduð þannig að börn eiga erfitt með að komast að rafhlöðunni. „Engu að síður er mikilvægt að hafa varann á, margir átta sig líklega ekki á hættunni,“ segir Herdís.
Vélindað brann í sundur
Hún segir að í Bandaríkjunum hafi 80 börn hlotið varanlegan skaða eftir að hafa gleypt hnapparafhlöðu og 15 börn þar í landi hafi látist vegna þess, þar af 11 undanfarin sex ár. Hún nefnir einnig dæmi sem talsvert hefur verið til umfjöllunar í breskum fjölmiðlum. „Lítil stelpa var að leika sér með baðvog, hnapparafhlaða datt úr voginni og stúlkan stakk henni upp í sig. Rafhlaðan festist í vélindanu, það brann í sundur og hún varð fyrir varanlegum skaða sem aldrei verður bættur,“ segir Herdís.Hún segist líka hafa heyrt að gæludýr hafi drepist eftir að hafa gleypt hnapparafhlöður og segir að hún hafi séð viðvaranir þessa efnis á dýralæknastofum. „Það gerist nákvæmlega það sama hjá þeim og fólki, en þau geta ekki látið vita af vanlíðan sinni.“
En hvað er það sem gerist þegar hnapparafhlöður eru gleyptar? „Plúshliðin á rafhlöðunni, sú sem gefur strauminn, er með litlum götum,“ segir Herdís. „Með þeim sogar rafhlaðan sig fasta við líffærin, t.d. við magavegginn. Þar er bleyta sem veldur leiðni, brennsla rafhlöðunnar byrjar og hún fer að leka.. Eftir því sem hún hefur verið minna notuð, þeim mun kröftugri er hún og því meiri verður skaðinn. Ef barn gleypir hnapparafhlöðu og hún fær að vera óáreitt, getur það tekið innan við tvo sólarhringa fyrir rafhlöðuna að brenna sig í gegnum líffæri.“
Vel fylgst með
„Börn setja allt upp í sig og það gerist af og til að á deildina til okkar komi börn sem hafa gleypt svona rafhlöður,“ segir Ingileif Sigfúsdóttir, deildarstjóri bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins. Hún segist ekki þekkja til þess að börn hér á landi hafi skaðast alvarlega vegna þessa. „Ef þetta stendur í hálsi þá þarf að sækja það, ef rafhlaðan fer ofan í maga þá er fylgst vel með því og teknar myndir til að sjá hvort hún hefur fest í maganum. En yfirleitt skilar barnið þessu sína náttúrulegu leið,“ segir Ingileif.Margir safna notuðum rafhlöðum saman í þar til gerða endurvinnslukassa. Oft er um talsvert magn að ræða og ekki mun þess alltaf gætt að kassinn sé utan seilingar ungra barna, að sögn Herdísar. „Það gildir það sama um þessar rafhlöður og önnur hættuleg efni og lyf – þetta á að læsa niðri,“ segir Herdís.
Einkenni
» Börn sem hafa gleypt rafhlöður vilja oft hvorki borða né drekka.
» Þá finna þau gjarnan fyrir sleni og flensueinkennum.
» Helstu einkennin eru ógleði, uppköst, magaverkir, hósti, hiti, erfiðleikar við öndun, verkir í koki og/eða hálsi og niðurgangur.