Björn Pálmar Sveinsson fæddist í Reykjavík 8. desember 1951. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 22. september 2016.

Foreldrar Björns voru Sveinn Samúelsson, vélstjóri, f. 28. júlí 1922 í Reykjavík, d. 28. júní 2013, og Unnur Hrefna Guðmundsdóttir, húsmóðir, f. 13. mars 1922 í Reykjavík, d. 17. desember 1996. Systkini Björns eru Sigríður Jórunn, f. 1944, Bryndís Jóna, f. 1948, og Jóhann Valdimar, f. 1949.

Björn kvæntist þann 18. júní 1983, Huldu Ólafsdóttur, f. 21. júní 1958, foreldrar hennar voru Ólafur Hallbjörnsson prentari, f. 14. mars 1923, d. 31. desember 1966, og Sigríður Sigurðardóttir verkakona, f. 27. nóvember 1919, d. 11. janúar 2012. Björn og Hulda bjuggu fyrst um sinn við Kársnesbraut í Kópavogi en fluttust seinna í Vesturberg í Reykjavík þar sem þau hafa búið síðan. Synir þeirra eru: Þórður Örn, f. 16. febrúar 1979, sambýliskona Helga Svana Ólafsdóttir, dóttir þeirra er María Hlín. Björn Ingi, f. 18. janúar 1983, sambýliskona Dóra Björk Steinarsdóttir, dætur þeirra eru Anika Diljá og Katrín Erla.

Björn ólst upp á Seltjarnarnesi, gekk í Mýrarhúsaskóla og útskrifaðist þaðan 1968 með gagnfræðaskólapróf. Björn nam rafvirkjun við Iðnskólann í Reykjavík og lauk þaðan sveinsprófi árið 1975. Hann hóf síðar nám í Tækniskóla Íslands og útskrifaðist sem rafiðnfræðingur í árslok 1979. Að auki tók Björn ýmis endurmenntunarnámskeið eftir að formlegri menntun lauk. Á námsárum sínum sinnti Björn ýmsum störfum, var til sjós eina vertíð og starfaði sem rafvirki. Að námi loknu hóf hann störf á dæluverkstæði Olíufélagsins ehf. og varð síðar verkstjóri á rafmagnsdeild verkstæðisins. Björn hafði umsjón með uppsetningu og viðhaldi á rafeindadælum, sjálfsölum og öðrum stjórnbúnaði, ásamt nýlögnum og viðhaldi á starfstöðvum Olíufélagsins. Við stofnun Olíudreifingar 1996 færði Björn sig til í starfi og vann við hönnun raflagna, forritun iðnstýringa ásamt lýsingahönnun fyrir viðskiptavini Olíudreifingar. Árið 2007 hóf Björn störf hjá RTS Verkfræðistofu, sem seinna varð svo hluti af EFLU verkfræðistofu, þar sem hann starfaði við ýmis hönnunarverkefni á sviði rafmagns til dauðadags.

Útför Björns verður frá Fella- og Hólakirkju í dag, 3. október 2016, klukkan 13.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir,

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Takk fyrir árin okkar fjörutíu,

Þín Hulda.

Elsku pabbi, ég trúi því ekki að ég sitji hér að skrifa mín síðustu orð til þín. Við áttum eftir að gera svo ótrúlega margt saman og bölva ég sjálfum mér mest af öllu fyrir að hafa ekki verið búinn að taka þennan veiðitúr í Elliðaárnar sem við vorum búnir að tala um í mörg ár. Hvorugur okkar átti von á þessu. Þegar ég var lítill og fram eftir aldri varstu duglegur að fara með mig að veiða og áttum við ófáar stundir við árbakkann seinna meir þegar við veiddum saman árlega í Laxárdal. Ég mun hlýja mér við þær minningar um ókomna tíð. Þú varst endalaust þolinmóður maður, enda kannski lítið annað í boði þegar þú áttir son eins og mig. Við vorum alltaf góðir félagar og þú vildir alltaf allt fyrir mig gera, sama hvað það var. Ég mun aldrei gleyma því hversu oft þú hjálpaðir mér, hvort sem það voru bílaviðgerðir, standsetning á fyrstu íbúðinni okkar eða annað sem mig vantaði aðstoð við í gegnum tíðina. Alltaf varstu boðinn og búinn. Þú kenndir mér svo ótrúlega margt. Enda varstu með eindæmum góður og duglegur maður með mikla og ríka réttlætiskennd sem þú smitaðir óneitanlega yfir í okkur strákana þína. Þú varst líka fagmaður fram í fingurgóma og skein það í gegn í öllum verkum þínum.

Þegar Anika Diljá leit dagsins ljós varðst þú hamingjusamasti maður í heimi, þegar Katrín Erla bættist við og María Hlín fannst mér eins og hjartað þitt hefði stækkað um mörg númer. Þú elskaðir afastelpurnar þínar svo óendanlega mikið að það skein af þér í hvert skipti sem þær voru nálægt þér. Þess vegna nísti það mig inn að beini þegar ég þurfti að segja þeim að afi Bjössi kæmi aldrei aftur. Þeim þótti svo endalaust vænt um þig og skilja ekki að þú sért ekki lengur fastur punktur í tilveru þeirra – ekki frekar en ég. En hafðu engar áhyggjur, ég mun sjá til þess að þær gleymi þér aldrei, ekki frekar en við hin sem þekktum þig. Þú barðist eins og ljón, eins lengi og mögulegt var, en á einhverjum tímapunkti verða allir að sætta sig við að stríðið var tapað þótt þér tækist að vinna margar stórar orrustur. Eftir situr stórt og mikið tómarúm hjá okkur öllum sem aldrei verður fyllt upp í en eins og við bræðurnir lofuðum þér pössum við mömmu fyrir þig . Ég mun sakna þín á hverjum degi meðan ég dreg andann og veit að ég er betri maður af því þú varst pabbi minn.

Björn Ingi Björnsson.

Með sorg í hjarta kveðjum við kæran mág og svila, Björn Pálmar Sveinsson, eftir 40 ára samfylgd sem aldrei bar skugga á.

Fyrir örfáum vikum voru Bjössi og Hulda hans í góðu yfirlæti í Grikklandi. Er heim var komið þurfti hann að leggjast inn á spítala vegna sýnatöku úr lunga sem hugsanlega gæti kallað á fleygskurð.

Það sem á eftir kom er fjölskyldunni óskiljanlegt og nú er hann allur.

Í gegnum hugann renna ótal minningar um góðar samverustundir stórfjölskyldunnar í gegnum árin.

Sem dæmi hin árlega baunaveisla sem Bjössi og Hulda hafa haldið á sprengidaginn fyrir stórfjölskylduna í áraraðir. Þar nutu þau hjónin sín vel enda miklir gestgjafar og góð heim að sækja.

Bjössi var ekki maður margra orða, en hafði skoðanir á mönnum og málefnum sem hann lét í ljós ef svo bar undir á sinn hægláta hátt. Hann tók kannski ekki beinan þátt í umræðunni sem var í gangi, heldur hlustaði álengdar og átti það svo til að skjóta frá sér skemmtilegri setningu sem hitti beint í mark því hann var orðheppinn og húmoristi. Þá leyndi það sér ekki að hann fylgdist vel með því sem efst var á baugi jafnt heima sem heiman.

Hann var afar vinnusamur og vandvirkur og var gott að leita til Bjössa um ráð eða aðstoð hvort heldur var um rafmagns- eða bílamál að ræða.

Móðurætt Huldu er úr Suðursveit. Þegar Bjössi kynntist Huldu kynntist hann líka Suðursveitinni sem varð honum afar kær. Þau hjónin hafa í áratugi ræktað ættarböndin við Suðursveitina og verið dugleg að fara austur í Gamla-Garð til Ragnars, móðurbróður Huldu, jafnt að sumri sem vetri.

Hvergi kunni Bjössi betur við sig en þegar hann var að stússast í einhverju í Gamla-Garði. Þar sýndi sig vel hversu laghentur hann var og útsjónarsamur í vélaviðgerðum. Fátt ber því betra vitni en gamli uppgefni Ferguson-traktorinn sem hann gerði upp af mikilli þolinmæði og natni. Þegar því verki lauk var vart sú skrúfa eða ró sem hann var ekki búinn að eiga við og traktorinn stóð nýmálaður og gangfær á hlaðinu. Þessi elja og dugnaður lýsir honum kannski best.

Hulda og Bjössi höfðu gaman af að ferðast, eiga þau ófáar utanlandsferðir að baki þar sem þau nutu þess að aka um og skoða ókunnar slóðir.

Bjössi okkar var mikill barnakall og eiga börnin og barnabörnin í fjölskyldunni góðar minningar um Bjössa hennar Huldu eins og þau kölluðu hann.

Fyrir tæpum fjórum árum eignuðust þau hjónin sitt fyrsta barnabarn, Aniku Diljá, dóttur Björns Inga og Dóru, á eftir kom Katrín Erla og síðan María Hlín dóttir Dodda og Helgu.

Þessar litlu stúlkur hafa verið augasteinar afa síns og ömmu og nú er afa Bjössa sárt saknað og mikið um hann spurt.

Svo er því farið:

Sá er eftir lifir

deyr þeim sem deyr

en hinn dáni lifir

í hjarta og minni

manna er hans sakna.

Þeir eru himnarnir

honum yfir.

(Hannes Pétursson)

Elsku Hulda okkar, Doddi og Helga, Björn Ingi og Dóra, yndislegu afa- og ömmustelpurnar og allir þeir sem eiga um sárt að binda vegna fráfalls kæra Bjössa.

Megi allar góðar vættir styðja ykkur og styrkja. Minningin um góðan og vandaðan mann mun lifa.

Hjartans kveðjur.

Erla Ólafsdóttir,

Örvar Ingólfsson,

Örn Ólafsson,

Signý Einarsdóttir.