Beinafundur Mannabeinin fundust skammt frá fundarstað sverðsins.
Beinafundur Mannabeinin fundust skammt frá fundarstað sverðsins. — Ljósmynd/Facebooksíða Sævars Guðjónssonar
Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.is Of snemmt er að segja til um hvort mannabeinin sem fundust í Skaft-ártungu í gær séu af eiganda sverðsins sem fannst á svipuðum slóðum í síðasta mánuði. Sverðið er frá tíundu öld.

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Of snemmt er að segja til um hvort mannabeinin sem fundust í Skaft-ártungu í gær séu af eiganda sverðsins sem fannst á svipuðum slóðum í síðasta mánuði. Sverðið er frá tíundu öld. Það verður þó að teljast líklegt að mannabeinin tengist fundinum á sverðinu, að sögn Ugga Ævarssonar, fornleifafræðings hjá Minjastofnun.

Gæsaveiðimenn gengu fram á mannabein í landi Ytri-Ása í Skaftártungu á laugardaginn og fundust þau 20-30 metrum frá þeim stað þar sem veiðimennirnir fundu sverðið í síðasta mánuði. Þrír fornleifafræðingar eru nú við rannsóknir á svæðinu, tveir starfsmenn Minjastofnunar og mannabeinasérfræðingur frá Fornleifastofnun. Að sögn Ugga verða tvær tilgátur sannreyndar, hvort um sé að ræða gröf sem áin hafi framkallað eða hvort fornmunirnir hafi borist niður með ánni. „Við vorum bara að lenda og nú er bara að vinda sér í að skoða ummerkin,“ sagði Uggi í samtali við mbl í gær. „Við erum að fá yfirsýn yfir dreifinguna á þessu. Við munum grafa niður og sjá hvort það sé eitthvað enn neðar, og ganga meðfram ánni.“

Beinin kyn- og aldursgreind

Uggi sagði að beinin yrðu tekin með í bæinn að rannsókn lokinni þar sem mannabeinasérfræðingurinn gæti kyn- og aldursgreint beinin.

„Við sjáum til hvernig gengur í dag og við verðum áfram í nótt ef við náum ekki að klára í dag [í gær]. Við erum með dróna og ætlum að sjá hvort við komum honum á loft. Það er svolítið hvasst, en við sjáum til,“ sagði Uggi og hann sagði gríðarlega byltingu að geta séð samhengi hlutanna í gegnum augu drónans. „Það getur verið erfitt að átta sig á jörðu niðri.“