Ljósleiðari Gagnaveitu Reykjavíkur hefur þá sérstöðu að með samningum við fjölda sveitarfélaga hefur öllum heimilum innan þéttbýlis sveitarfélaganna staðið til boða að tengjast Ljósleiðaranum. Við höfum getað lofað almenningi öflugustu gagnatengingu sem heimilum stendur til boða vegna þess að við þekkjum möguleika ljóssins til gagnaflutninga og við tengjum Ljósleiðarann alla leið, allt inn í stofu.
Það er rúmur áratugur frá því fyrstu heimilin á Seltjarnarnesi tengdust Ljósleiðaranum. Þá þótti flutningshraðinn 30 megabit á sekúndu í báðar áttir byltingarkenndur. Fljótlega gátu heimilin tvöfaldað flutningsgetuna. 500 megabit voru boðin í fyrra og nú stendur þeim heimilum sem tengd eru Ljósleiðaranum 1.000 megabita flutningshraði til boða; eitt gíg á sekúndu. Það er meira en þrítugfaldur upphaflegi tengihraðinn.
Gagnaveita Reykjavíkur býður ekki þjónustu um Ljósleiðarann. Við látum hinum ýmsu fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækjum eftir að bjóða fólki aðgang að gagnaskýjum, Netflix, sjónvarpsrásum eða hverju sem markaðurinn telur að falli í kramið. Við erum ekki í þeirri samkeppni. Þetta viðskiptalíkan hefur gefist stórvel.
Í lok þessa árs munu þau heimili, sem geta tryggt sér þetta gæðasamband, verða orðin 77 þúsund talsins. Reykjavík er öll tengd og fjöldi annarra stórra sveitarfélaga. Þéttbýli Kópavogs verður fulltengt 2017 og Hafnarfjörður og Garðabær klárast fyrir árslok 2018.
Við teljum okkur hafa byggt upp þessa innviði af framsýni. Upplýsingasamfélagið hefur þróast hraðar en flestir sáu fyrir og þar með þörfin fyrir flutningshraða á gögnum. Sú síaukna þjónusta sem fólk vill kaupa framkallar flöskuhálsa í dreifikerfum gagna en með þá traustu innviði sem Ljósleiðari alla leið er getum við verið skrefinu á undan. Uppfærsla okkar í eitt gíg fyrir þá sem það kjósa er til marks um það.
Það er furðulega stutt síðan það heimili og jafnvel sá vinnustaður þótti vel búinn sem bjó að mótaldstengdri tölvu. Nú er algengt að um tugur tækja á heimilum fólks þurfi að vera nettengdur. Símar, tölvur og heimilistæki af ýmsum toga treysta á öfluga gagnatengingu til að virka og því öflugri sem tengingin er, því betur þjóna tækin okkur. Þess vegna uppfærum við Ljósleiðarann í eitt gíg.
Höfundur er framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur.