Jón S. Möller fæddist í Reykjavík 7. nóvember 1956. Hann lést á líknardeild LSH 22. september 2016.

Foreldrar hans voru Guðrún Möller, f. 1926, d. 2005, og Sigurður Möller vélstjóri, f. 1915, d. 1970. Systir Jóns er Valfríður Möller, f. 1959, gift Jóni Karli Ólafssyni, og hálfbróðir samfeðra er Jóhann Georg Möller, f. 1934.

Eftirlifandi eiginkona Jóns er Helga Hauksdóttir, f. 1956, félagsráðgjafi, dóttir hjónanna Hauks Ármannssonar, f. 1932, og Sigrúnar Erlu Sigurðardóttur, f. 1937, d. 2015. Synir Jóns og Helgu eru: 1) Sigurður meistaranemi í fjármálaverkfræði, f. 1989. Sambýliskona Sigurðar er Ásta Kristín Gunnarsdóttir sjúkraþjálfari. Sonur þeirra er Jón Trausti sem fæddist 25. ágúst síðastliðinn. 2) Haukur, nemi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, f. 1991. en eiginkona hans er Hrafnhildur Jónsdóttir meistaranemi í umhverfisverkfræði.

Jón ólst upp á Írafossi til 12 ára aldurs en þá flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. Jón lauk stúdentsprófi frá MA 1977, prófi í byggingaverkfræði frá HÍ 1981 og licentiatprófi frá Chalmers tekniska högskola í Gautaborg 1994. Jón vann m.a. hjá VSÓ, Línuhönnun og Ístaki sem verkfræðingur auk þess sem hann vann við eigið fyrirtæki síðustu árin sem ráðgjafi og við stjórnun og hönnun margvíslegra verka á erlendri grund.

Útför Jóns fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 3. október 2016, klukkan 13.

Alltaf man ég augun hans,

eldar brunnu kærleikans,

orð af vörum elskhugans

alsæl mættu hjarta.

Framtíðina leit ég ljúfa og bjarta.

Mig vantar orð til að þakka þér,

í þögninni geymi ég bestu ljóðin,

gullinu betra gafstu mér,

göfuga ást í tryggða sjóðinn

og það sem huganum helgast er,

hjartanu verðu dýrsti gróðinn.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Takk fyrir allt, elsku vinur, og lífsförunautur, hvíl í friði.

Þín Helga.

Sá tími sem hann pabbi minn gaf okkur til viðbótar verður mér alltaf kær. Þegar ég las að sorgin er gjaldið fyrir kærleikann þá skildi ég ekki alveg hvað var átt við og fannst það mjög skrítið að segja það, nú hefur vika liðið frá því að faðir minn lést og eftir þann tíma þá loks skil ég almennilega. Að geta fundið fyrir svo mikilli sorg þá fann ég hvað ástin var mikil.

Ég er glaður að hann fékk að sjá fyrsta barnabarnið sitt koma í heiminn og sorgmæddur á sama tíma að hann fékk ekki að dekra við það eins mikið við og hann vildi. Hann fékk að sjá mig og Hrafnhildi gifta okkur en hann sagði reglulega við mig að ég ætti að passa upp á hana og mætti alls ekki missa hana frá mér. Hann var alltaf tilbúinn að gera allt fyrir mig og bróður minn. Hann var alltaf með svörin við öllu, hvort sem það væri tengt lærdómi, hversdagsvandamálum hjá mér eða persónulegum vandamálum. Hann var sannarlega klettur í lífi mínu. Hann var og er mín stærsta fyrirmynd í því hvernig maður á að passa upp á og elska fjölskylduna sína.

Sorgin og söknuðurinn verða alltaf mikil en að sama skapi verður væntumþykjan og ástin alltaf til staðar.

Hvíldu í friði, elsku besti pabbi minn.

Þinn Haukur.

Elsku pabbi minn.

Hann pabbi minn lést í faðmi fjölskyldu sinnar eftir stutta en hetjulega baráttu við krabbamein þann 22. september. Við áttum kveðjustund á gjörgæslunni föstudaginn 16. september. Okkur var tilkynnt að hann ætti stutt eftir og að hann væri kominn í öndunarvél. Eftir að slökkt var á öndunarvélinni var haldin róleg stund þar sem vinir og fjölskylda fengu að kveðja. Líkt og pabbi var þegar hann var upp á sitt besta var hann ekki alveg tilbúinn að fara á forsendum annarra og byrjaði að anda sjálfur og loks vaknaði hann.

Ef það eru til kraftaverk þá tel ég að pabbi hafi fengið lánað eitt til að hugga okkur og segja að hann elskaði okkur. Eftir að hann vaknaði fór hann með vísur og kvæði til að kæta þá sem voru í kringum hann.

Elsku pabbi, ég þakka þér fyrir að hafa þraukað lengur til að sjá afabarnið þitt fá nafn og ég þakka þér fyrir að hafa rætt við mig og beint mér á rétta braut þegar við fjölskyldan reynum að yfirstíga þennan harmleik.

Viska þín, örlæti og hvernig þú tókst á við verkefni mun aldrei hverfa úr hjarta mínu. Þú sagðir aldrei nei við neinn þegar þú varst beðinn um aðstoð og varst alltaf tilbúinn að gera allt fyrir mig og alla.

Hvíldu í friði, elsku besti pabbi minn.

Sigurður.

Fallinn er frá góður drengur, mágur minn og góður vinur, Jón S. Möller. Nonni, eins og hann var jafnan kallaður, greindist með erfiðan sjúkdóm snemma sumars. Eftir erfiða baráttu kvaddi hann okkur í lok síðustu viku. Á slíkum stundum kemur margt upp í hugann og upp koma spurningar um sanngirni lífsins og hvernig hlutir geta æxlast á lífsleiðinni. Hvernig stendur á því, að tiltölulega ungur maður, sem alltaf hefur verið hraustur, er skyndilega í harðri baráttu upp á líf og dauða ? Af hverju virðast sjúkdómseinkenni hafa farið fram hjá öllum, þar til í raun var of seint að grípa inn í? En það er víst lítið á slíkum hugsunum að græða og það er mun mikilvægara að minnast góðu stundanna og þakka fyrir samveru við góðan vin.

Við Nonni höfum þekkst lengi eða í raun frá því að ég og Vala konan mín kynntumst. Við erum svo heppin að hafa verið saman síðan við vorum 16 ára gömul og Nonni var hreinlega með Völu þegar við kynntumst á Mallorca í ferð með foreldrum okkar. Það má því segja, að við höfum verið áhrifavaldar í uppvexti og þroska hvor annars. Nonni var gríðarlega vel gefinn og klár maður. Hann var hins vegar ekki alltaf allra, fór sínar eigin leiðir, en var alltaf traustur vinur vina sinna. Við vorum t.d. aldrei sammála um stjórnmál og aðdáun hans á Liverpool var óskiljanleg. Þetta skipti hins vegar aldrei máli. Ég held að það hafi ekki verið neitt sem Nonni hefði ekki verið til í að gera fyrir mig og Völu og ég held að það hafi verið alveg gagnkvæmt. Fyrir það erum við þakklát.

Helga mín, þetta er sárt og þú hefur alla okkar samúð. Þetta er einnig gríðarlega sárt fyrir synina, Sigurð og Hauk, sem sjá á eftir góðum föður og vini. Það er líka sárt að sjá Völu missa eina bróður sinn. Þau hafa alla tíð verið mjög náin. Fjölskylduböndin hafa alltaf verið sterk og þannig verður það vonandi áfram. Það verður alltaf gott að minnast athafnar í síðustu viku, þegar litli drengurinn þeirra Sigga og Ástu var skírður. Hann fékk nafn afa síns og heitir Jón Trausti Möller og nafni hans náði sem betur fer að vera viðstaddur og upplifa þessa stund.

Farðu í friði, Nonni, og takk fyrir allar góðar samverustundir á liðnum árum og áratugum. Helga, Siggi, Haukur, Ásta, Hrafnhildur og Jón Trausti – við erum svo sannarlega með ykkur í sorginni. Munum allar góðu stundirnar og minnumst góðs manns, sem féll allt of snemma frá.

Jón Karl Ólafsson.

Í dag er erfiður dagur. Erfiður og sorglegur.

Það er erfitt að kveðja einhvern sem manni þykir svona mikið vænt um og sorglegt er hve snemma hann þurfti að kveðja.

Nonni frændi var góður maður og alltaf trúr sjálfum sér, ofsalega klár og mikil fyrirmynd. Hann hafði miklar skoðanir og hafði gaman af að vera á öndverðum meiði sem heldur betur kryddaði upp á samræður í fjölskylduboðum. Svo yfirleitt þegar hápunkti rökræðna var náð, þá kom í ljós að hann var sammála okkur og langaði bara aðeins að spjalla. Gera umræðurnar meira spennandi.

Það er erfitt að ímynda sér fjölskylduboð án Nonna en við erum samt heppin hve mörg þau voru vegna nándar fjölskyldu okkar. Minningar um Trivial-spil á aðfangadag, þar sem Nonni veitti ávallt harða samkeppni, ferðir í Whole Foods í Orlando og gæðastundir í sumarbústaðnum í Húsafelli sitja eftir og eru þær okkur svo kærar. Jólin verða skrýtin.

Nonni frændi var svo miklu meira en bara frændi okkar en það er vegna þess hversu samheldin hann og mamma voru. Nánari systkini er erfitt að finna og er samband þeirra og vinátta ein uppistaðan í því hversu náin við systkinin erum. Pabba og Nonna mætti kalla uppeldisbræður þannig að hann var mikill partur af okkar fjölskyldu og æsku. Við vitum það öll fjögur að hann hefði gert allt fyrir okkur, hann var svo traustur og góður.

Hans verður sárt saknað.

Elsku Helga, Siggi og Haukur, við systkinin í Funafoldinni vottum ykkur okkar innilegustu samúð og skynjum þann missi sem þið hafið orðið fyrir.

Guðrún, Anna Sigrún, Edda Björg og Jón Valur.