Jóhann Guðni Reynisson fæddist á Sólvangi 3.10. 1966 og ólst upp í Hafnarfirði, fyrst við Hringbraut en síðan á Hraunbrún. Auk þess var hann mikið hjá ömmu sinni við Suðurgötuna og á Jófríðarstaðavegi.
Jóhann Guðni var í sveit á Berustöðum í Ásahreppi, frá þriggja ára aldri og þar til hann varð 13 ára: „Ég er þakklátur fyrir þessi sumur hjá þeim Dýrfinnu og Trausta. Það var gott innlegg í uppeldið.“
Jóhann Guðni stundaði nám í píanóleik við Tónlistarskólann í Hafnarfirði í nokkur ár, var í handbolta alla yngri flokkana í FH, í Haukum í knattspyrnu og í frjálsum íþróttum hjá FH: „Auk íþróttanna er ljósmyndun meðal helstu áhugamála.minna. Ég keppti líka tvívegis í vaxtarrækt um tvítugt.“ Jóhann Guðni stundaði nám við Verslunarskóla Íslands en lauk stúdentsprófi frá Flensborg, lauk BA-prófi í íslensku og fjölmiðlafræði frá HÍ, stundaði nám í uppeldis- og kennslufræðum við sama skóla lengst af en lauk kennaraprófi frá HA. Þá lauk hann námi í opinberri stjórnsýslu og stjórnun frá EHÍ.
Jóhann Guðni var við afleysingar í lögreglunni í Kópavogi fjögur sumur og einn vetur: „Það var stundum erfitt en samt einhver dýrmætasti skóli sem maður býr að alla tíð.
Auk þess var ég háseti á trillunni Guðbjörgu hjá tengdapabba heitnum og minnist þess með hlýhug.“
Jóhann Guðni var blaðamaður, ritstjórnarfulltrúi og ritstjóri við tímarit, fyrst hjá Samútgáfunni/Korpus og síðan Fróða. Hann kenndi íslensku við Framhaldsskólann á Laugum, var upplýsingastjóri Hafnarfjarðarbæjar og síðan sveitarstjóri Þingeyjarsveitar fyrsta kjörtímabilið eftir stofnun hennar 2002. Þá sagði hann skilið við skrifstofur og fundahöld, hóf húsasmíðanám við VMA og starfaði jafnframt hjá Norðurpól ehf., byggingarverktaka á Laugum í Þingeyjarsveit. Hann er enn lærlingur í faginu en stefnir á að ljúka sveinsprófi síðar meir. Hann starfaði síðan hjá fjármögnunarfyrirtækinu Avant í Reykjavík um skeið, var við kennslu í Öldutúnsskóla, Iðnskólanum í Hafnarfirði og Flensborgarskólanum samhliða störfum að kynningarmálum fyrir Fjarðarkaup, Lions og fleiri aðila í nokkur ár en bauðst þá framkvæmdastjórastaða við uppbyggingu og rekstur ferðaþjónustu í Biskupstungum. Nú starfar hann í félagi við frænda sinn og fjárfestana, Bjarna Kristján Þorvarðarson og eiginkonu hans, Katrínu Helgadóttur, við byggingu, rekstur og útleigu sumarhúsa á fallegum útsýnisstað á Torfastaðaheiði, rétt við Reykholt.
Jóhann Guðni gaf út ljóðabókina Í fegurð hafsins 2002, er einn höfunda Loksins klukknahljómur – 100 ára saga Fríkirkjunnar í Hafnarfirði 2013 og skrifaði bókina Þetta var nú bara svona – saga Jóns Magnússonar skipstjóra á Patreksfirði 2015. Hann vinnur nú að samantekt á sögu Golfklúbbsins Keilis. Þá kom hann að útgáfu á ljóðum og vísum Ólafs Runólfssonar, ljóðskálds og hagyrðings, sem gaf út sínar fyrstu ljóðabækur kominn á níræðisaldur.
Jóhann Guðni var formaður safnaðarstjórnar Fríkirkjunnar í Hafnarfirði, var formaður Þingeysks sagnagarðs og sat í stjórn Urðarbrunns, sat í stjórn Hjálparsveitar skáta í Reykjadal, í skorarnefnd íslensku við HÍ og í stjórn Mímis.
Fjölskylda
Eiginkona Jóhanns Guðna er Elínborg Birna Benediktsdóttir, f. 4.2. 1969, hársnyrtimeistari. Foreldrar hennar: Benedikt Jónsson, f. 7.5. 1947, d. 25.2. 1999, leigubílstjóri, og Guðrún Blöndal, f. 7.3. 1950, húsfreyja. Eiginmaður Guðrúnar frá 2010, er Ágúst Fannberg Friðgeirsson, f. 27.8. 1942.Dætur Jóhanns Guðna og Elínborgar Birnu eru 1) Ína Björk Jóhannsdóttir, f. 15.6. 1994, ferðaráðgjafi á Álftanesi, en unnusti hennar er Gunnlaugur Fannar Guðmundsson, nemi í rafvirkjun; 2) Hugrún Jóhannsdóttir, f. 4.8.1997, framhaldsskólanemi á Akureyri, en unnusti hennar er Helgi Freyr Guðnason, sem starfar á sambýli fyrir geðfatlaða, og 3) María Rún Jóhannsdóttir, f. 7.9. 2005, grunnskólanemi.
Systur Jóhanns Guðna eru Birna Reynisdóttir, f. 12.6. 1970, húsfreyja í Sviss, og Astrid María Reynisdóttir, f. 11.8. 1976, móttökustjóri Start Hostel í Keflavík.
Foreldrar Jóhanns Guðna eru Reynir Guðnason, f. 17.8. 1943, fyrrverandi skólastjóri Lækjarskóla, og Ingigerður María Jóhannsdóttir Dahl, f. 13.5. 1944, lyfjatæknir og verslunarmaður, en hún átti og rak um árabil snyrtivöruverslunina Brá við Laugaveg í Reykjavík.