Skot Þórir Bjarni Traustason reynir að stöðva Anton Rúnarsson sem skoraði fimm mörk fyrir Val gegn Gróttu.
Skot Þórir Bjarni Traustason reynir að stöðva Anton Rúnarsson sem skoraði fimm mörk fyrir Val gegn Gróttu. — Morgunblaðið/Eggert
Handbolti Ívar Benediktsson Guðmundur Karl Gróttu-liðið hefur leikið vel til þessa á Íslandsmótinu í handknattleik karla og var taplaust áður en liðið mætti ofjarli sínum í Vals-liðinu í Seltjarnarnesi á laugardaginn Eftir lengst af jafnan leik voru...

Handbolti

Ívar Benediktsson

Guðmundur Karl

Gróttu-liðið hefur leikið vel til þessa á Íslandsmótinu í handknattleik karla og var taplaust áður en liðið mætti ofjarli sínum í Vals-liðinu í Seltjarnarnesi á laugardaginn Eftir lengst af jafnan leik voru Valsarar mun öflugri á síðasta stundarfjórðungi í síðari hálfleiks, það var eins og þeir ætti meira þrek eftir en leikmenn Gróttu. Lokatölur 26:23. Fyrsta tap Gróttu í deildinni staðreynd og þar með hafa öll lið Olís-deildar karla tapað leik á þessari leiktíð.

Valsmenn virðast vera að rétta úr kútnum eftir slæma byrjun. Þeir hafa nú unnið tvo leiki í röð á nokkuð sannfærandi hátt. Sóknarleikurinn er orðinn liðlegri og sóknirnar ekki alveg eins langar og leiðinlegar og í fyrstu leikjunum. Einnig virðist vera að hýrna yfir markvörðum liðsins sem voru daufir í dálkinn í fyrstu leikjunum. Varnarleikurinn er hinsvegar góður sem fyrr.

„Við lékum undir getu nánast frá upphafi. Fyrstu tíu mínúturnar voru í lagi en eftir það voru við ekki á pari við það sem getum, sagði Árni Benedikt Árnason, fyrirliði Gróttu, vonsvikinn að loknum tapleikjum.

Sérstaklega voru sóknarmönnum Gróttu mislagðar hendur að þessu sinni. Þeir gerðu mörg einföld mistök. Finnur Ingi Stefánsson stóð upp í liðinu ásamt Lárusi Helga Ólafssyni markverði. Þá er Þráinn Orri Jónsson ekkert lamb að leika við, hvorki í vörn né sókn, hávaxinn og rammur að afli.

Þótt Króatinn Josip Juric Grgic geti vafalaust leikið betur en hann gerði að þessu sinni þá er ljóst að tilkoma hans hefur aukið breiddina í sóknarleik Valsliðsins. Hann mun vafalaust nýtast betur þegar hann hefur vanist leik liðsins og kynnst betur samherjum sínum.

Akureyri vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu þegar liðið heimsótti nýliða Selfoss í Vallaskóla á laugardag. Lokatölur urðu 29:32.

Akureyringar fóru hægt af stað og sérstaklega gekk sóknarleikurinn stirðlega framan af. Selfoss leiddi fyrstu tíu mínúturnar en þá hrukku Akureyringar í gang, komust yfir og héldu forystunni eftir það. Staðan í hálfleik var 13:15.

Akureyri sterkari á lokakaflanum

Í síðari hálfleik gerðu Selfyssingar áhlaup af og til en tókst ekki að jafna. Þeir hefðu getað nýtt betur þá kafla sem þeir voru manni fleiri inni á vellinum en Akureyringar fengu talsvert fleiri tveggja mínútna brottvísanir. Jafnvel tveimur fleiri tókst Selfyssingum ekki að nýta sóknir sínar til þess að minnka muninn.

Þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum höfðu Selfyssingar skorað fjögur mörk í röð og minnkað muninn niður í eitt mark, 25:26, en nær komust þeir ekki. Akureyringar skerptu á vörninni og nýttu sínar sóknir betur á lokakaflanum þar sem markverðir Selfoss vörðu ekkert síðustu tíu mínúturnar.

Andri Snær Stefánsson var markahæstur Akureyringa með 11 mörk. Sex þeirra komu af vítalínunni en Andri var sjálfur duglegur að fiska vítin. Arnar Þór Fylkisson varði mark gestanna og sá við 13 skotum. Hjá Selfyssingum var Elvar Örn Jónsson eina skyttan sem náði að sýna sitt rétta andlit, hann skoraði 7/1 mörk og hornamaðurinn Andri Már Sveinsson skoraði 6.

Selfyssingar hafa nú tapað þremur leikjum í röð í deildinni, þar af tveimur leikjum á heimavelli. Nýliðarnir hafa átt góða spretti inn á milli og ungir leikmenn hafa sýnt að það er mikið í þá spunnið. Það er gleði á Selfossi yfir því að liðið sé í efstu deild en gestrisnin má ekki vera of mikil og liðið verður að safna stigum á heimavelli ef ekki á illa að fara.