[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.

Baksvið

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra, sem kjörinn var formaður Framsóknarflokksins í gær, segir ljóst að áherslubreytingar verði á Framsóknarflokknum með nýrri forystu, enda fylgi slíkt alltaf mannabreytingum. Framsóknarmenn kusu á milli Sigurðar Inga og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á seinni degi flokksþings Framsóknarflokksins í Háskólabíói í gær og hlaut Sigurður Ingi 370 atkvæði eða 52,7 greiddra atkvæða. Sigmundur fékk 329 atkvæði. „En við byggjum öll stefnu okkar á grunngildum Framsóknarflokksins. Þannig að við munum ekki sjá breytingu á því. Þetta snýst meira um ásýnd forystunnar og flokksins út á við,“ segir Sigurður.

Eftir að úrslit urðu ljós í gær gekk Sigmundur Davíð út af fundinum og í samtali við mbl.is sagðist hann vera svekktur yfir niðurstöðu kosninganna. Hann vildi ekki tjá sig um hvort hann myndi halda áfram störfum fyrir Framsóknarflokkinn.

Eygló og Gunnar hættu við

Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra var kjörin varaformaður flokksins með 95,8 prósent atkvæða en hún gaf kost á sér til varaformennsku í gærmorgun líkt og margir höfðu búist við. Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð, var kosinn ritari flokksins eftir að Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, dró framboð sitt til ritara til baka eftir að ljóst var að Sigurður hefði verið kosinn formaður.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, dró einnig framboð sitt til baka, en hún hafði gefið kost á sér til varaformanns. Öfugt við það sem hún sagði í aðdraganda flokksþingsins, um að framboð hennar til varaformanns væri skilyrt því að einhver annar en Sigmundur Davíð yrði kjörinn formaður flokksins, dró hún það til baka til að greiða leið Lilju í varaformanninn. „Það eru búnar að vera miklar tilfinningar í tengslum við kjör á forystu flokksins síðustu vikurnar. Það hefur verið öllum augljóst að það hafa tvær fylkingar tekist á. Ég taldi mikilvægt að við myndum gera okkar allra besta til að ná einni heild,“ sagði Eygló um ákvörðun sína í samtali við Morgunblaðið.

Vaxandi krafa um breytingar

„Það er ljóst að þeir atburðir sem gerðust í byrjun apríl hafa orðið til þess að innan Framsóknarflokksins kom fram vaxandi krafa um breytingu á forystu flokksins sem ég hef orðið við. Ástæðan fyrir því er að það var ljóst að við ættum möguleika á stærri skírskotun til breiðari hóps kjósenda en ella, og flokksþingið í dag [gær] staðfesti það,“ segir Sigurður. Líkt og sjá má á tímalínunni hér að ofan hefur margt gerst frá því að Kastljósþátturinn umtalaði, þar sem greint var frá eignarhaldi Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs, á Wintris Inc, var sýndur. Spurður hvort hann hefði þá getað gert sér í hugarlund að hann yrði formaður flokksins hálfu ári síðar segir hann svo ekki vera. „Þessar hugsanir fóru ekki í gegnum huga nokkurs manns í upphafi apríl 2016. Og allra síst minn.“

Ljóst er að Framsóknarflokksins bíður það verkefni að sætta stríðandi fylkingar fyrir komandi kosningar, segir Sigurður Ingi sem segir heppilegt að Lilja Dögg hafi verið kosin til að gegna forystuembætti í flokknum. Hún hafi stutt Sigmund Davíð og því úr andstæðri fylkingu. Sigurður vill þó ekki gera meira úr fylkingum innan flokksins að öðru leyti en að bitist hafi verið um formannsstólinn. Hann segist hlakka mikið til vinna með Lilju Dögg í framvarðasveit flokksins. Þau tvö hafi átt frábært samstarf undanfarna sex mánuði. „Við erum öflugur lýðræðisflokkur og gerum út um okkar mál með lýðræðislegum kosningum. Við Lilja höfum unnið frábærlega saman, hún býr yfir mikilli þekkingu og reynslu og ég hlakka mikið til að vinna með henni,“ segir Sigurður og segist ekki erfa það við Lilju að hún hafi stutt Sigmund til formennsku.„Við göngum glaðbeitt til kosninga á grundvelli öflugs málefnastarfs og árangurs á kjörtímabilinu,“ segir hann.

Lilja Dögg segir málefnastöðu flokksins góða eftir flokksþingið og segist ganga inn í kosningabaráttuna full tillhlökkunar. Hún segir árangurinn á kjörtímabilinu þar að auki mjög góðan og því sé mikilvægt að forystu flokksins takist að skapa sátt á milli fylkinga.

Höfum starfað mjög vel saman

Lilja lýsti yfir stuðningi við Sigmund Davíð í aðdraganda formannskjörsins. Spurð hvort það hafi verið óheppilegt í ljósi samstarfs hennar Sigurðar sem framundan er, segir Lilja það vera hreinskilni að gefa sig upp. „Ég kom inn í þetta með Sigmundi,“ segir hún en bætir því við að framsóknarmenn hafi kosið þau Sigurð til að gegna forystu í flokknum og þeim beri að vinna saman. „Við höfum starfað mjög vel saman í ríkisstjórn,“ segir hún.

Spurð hver staða Sigmundar Davíðs sé innan flokksins í ljósi úrslita gærdagsins segir Lilja stöðu hans mjög sterka í Norðausturkjördæmi og stuðningsmenn hans vilji að hann leiði lista Framsóknarflokksins í kjördæminu.

Gunnar Bragi segist telja eðlilegast, eftir það sem á undan var gengið, þ.e. hversu harður stuðningsmaður Sigmundar Davíðs hann hefur verið, að best væri fyrir alla aðila að hann drægi ritaraframboð sitt til baka. Hann sagði í aðdraganda formannskjörsins að Sigurður og Eygló hefðu unnið lengi á bak við tjöldin í flokknum. „Mín skoðun hefur ekkert breyst,“ segir Gunnar en bætir við að hann sé tilbúinn að ganga að sáttaborði með nýkjörnum formanni. Hann segist hafa rætt við Sigurð Inga um ákvörðun sína um að draga framboðið sitt til baka og hann segir Sigurð hafa unað við þá niðurstöðu.