Ferðaglaðir Íslendingar þekkja að það er hægara sagt en gert að sofna nóttina fyrir morgunflug til útlanda. Sú var raunin með Víkverja sem brá undir sig betri fætinum fyrir nokkrum dögum.

Ferðaglaðir Íslendingar þekkja að það er hægara sagt en gert að sofna nóttina fyrir morgunflug til útlanda. Sú var raunin með Víkverja sem brá undir sig betri fætinum fyrir nokkrum dögum. Sambland af tilhlökkun og ofurlitlu stressi réð því að draumalandið var fjarlægara en sú framandi slóð sem stefnt skyldi á. Víkverji sofnaði ekki og var því tímanlega í öllu og tók taxa vestur á BSÍ. Leigubílstjórinn var þessi týpa sem við þekkjum öll; karl sem hefur rúntað um borgina í fjörutíu ár og kann allt upp á tíu. Hefur séð, lifað og þekkir alla. Malar út í eitt og hefur skoðanir á flestu.

Víkverji var kominn í Leifsstöð um klukkan fimm að morgni. Raunar var óþarfi að mæta svo snemma því kvöldið áður hafði verið gengið frá innritun í flugið í gegnum netið. Þvílík þægindi. Strikamerki á blaði var skannað. Út kom miði sem límdur var á ferðatöskuna sem var svo vippað upp á færiband hvaðan hún steymdi inn í gímald. Við hliðið stóðu svo tollarar og aðrir slíkir. Þeirra er að gægjast og gramsa í handfarangri, segja fólki að fara úr skóm og taka af sér beltið og þreifa á því ef svo ber undir. Allt er þetta gert í þágu öryggis en sennilega er starfið ekki ýkja skemmtilegt.

Súkkulaði, ilmvötn, áfengi, lopapeysur, kiljubækur og doðrantar með landslagsmyndum. Það fæst allt milli himins og jarðar í verslunum flugstöðvarinnar þar sem öllu virðist snúið við, fært og húsakynni stækkuð mjög reglulega. Það er jafnvel erfitt að rata um húsið. Þá hefur veitingastöðum verið fjölgað og Leifsstöð er algjörlega á pari við aðrar flughafnir heimsins hvað varðar þægindi og þjónustu.

Í flugstöðinni hittir maður svo alltaf fjölda fólks; frændur og frænkur, vini, gömul skólasystkini eða vinnufélaga frá fyrri tíð, kjaftakunningja og svo framvegis. Og suma talar maður við út í eitt og er samferða fram landganginn og alla leið út í vél.