Magnað Birta skemmtir fólki um allan heim með mögnuðum sirkuslistum.
Magnað Birta skemmtir fólki um allan heim með mögnuðum sirkuslistum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sirkuslistakonan Birta Benónýsdóttir starfar með Les P'tits Bras, virtum frönskum fjölleikahópi. Hún elskar starfið sitt þótt það kalli á endalaus ferðalög um allan heim og fjarvistir frá kærastanum Lucasi línudansara.

Hildur Loftsdóttir

hildurl@mbl.is

Ég er búin að vera tvær vikur í Helsinki að undirbúa sýningu á vetrarsirkusnum hér í borg og verð fram í miðjan janúar. Við undirbúum í tvo mánuði og sýnum svo stanslaust tvisvar á dag í tvo mánuði, eða alls 80 sýningar. Þetta eru tólf sirkuslistamenn sem koma alls staðar að og við vinnum allan daginn við að koma sýningunni saman, en þetta er rosalega skemmtilegt,“ segir Birta Benónýsdóttir, sirkuslistakona með franska fjölleikahópnum Les P'tits Bras.

Örlögin taka í taumana

„Ég fluttist tvítug til Frakklands og fór í sirkusháskóla í bænum Chalons en Champagne. Ég ætlaði reyndar að fara í sirkusskóla í Svíþjóð en þegar ég var búin með menntaskólann var ekki rétta árið að fara, því skólinn tók bara inn annað hvort ár. Ég ákvað því að fara til Frakklands sem au pair í eitt ár. Ég fann fjölskyldu á netinu og þegar við fórum að tala saman útskýrði ég að ég þyrfti að fá vikufrí í júní til að fara til Svíþjóðar og taka inntökupróf í sirkusskóla. Þá kom í ljós að mamman vann í virtasta sirkusskóla Frakklands og spurði hvort ég vildi ekki bara fara þangað í skóla. Þetta var algjör tilviljun! Örlögin voru greinilega að segja mér að ég ætti að fara til Frakklands. Ég fór svo í vikulöng próf þar, komst inn og núna níu árum seinna er ég þar enn.“

Síðasta árið í skólanum ferðuðust Birta og samnemendur hennar með sína eigin sýningu í heilt ár og síðan fór hún til Palestínu að kenna sirkuslistir.

„Eftir það tók ég við hlutverki í mjög stórri sýningu sem ég ferðaðist með um allan heiminn í tvö ár, en síðustu þrjú ár hef ég unnið með Les P'tits Bras. Við höfum ferðast með sýninguna „L'Odeur de la Sciure“ í þrjú ár og höldum áfram í tvö í viðbót. Síðasta sumar héldum við 60 sýningar í sjö eða átta mismunandi löndum og það var frekar þreytandi. Núna er ég svo ánægð því þetta er í fyrsta skipti í níu ár sem ég er fjóra mánuði á sama staðnum. Það er algjör lúxus að fá að eiga heima einhvers staðar í stað þess að vera sífellt á nýju hótelherbergi.“

Fjölskyldan kemur með

„Í Frakklandi er ein allra sterkasta sirkushefð í heimi og hefur verið í fleiri hundruð ár. Við vinnslu á sýningunni okkar vorum við með aldamótin 1900 í huga. Félagar mínir kalla það La Belle Epoque, eða gullaldarskeið franskrar fjölleikhúshefðar. Í allri uppsetningunni leikum við okkur með stíl þessa tímabils án þess að það sé paródía. Við erum frekar að heiðra tímabilið. Fatahönnuðurinn vann alla búningana út frá þessum tíma, við erum í trapísum og rólum og stóru sterku mennirnir henda okkur í heljarstökkum á milli sín, sem var mikið um þá,“ segir Birta, sem er rosalega ánægð hjá þessu fyrirtæki.

„Við erum fimm á sviðinu og einn tæknimaður og okkur kemur mjög vel saman. Enda verðum við að vera vinir eins mikið og við erum saman, meira en með fjölskyldunum. Í hvert skipti sem við keyrum af stað erum við á leið til móts við ævintýrin, alveg sama hvert ferðinni er heitið. Margir af vinum mínum eru samt fjölskyldufólk og oftast eru bara börnin með á ferðinni. Ég þekki börn sem kunna fimm til sex tungumál reiprennandi. Þau læra bara öðruvísi á lífið en önnur börn.“

Birta hefur átt kærastann Lucas í sjö ár og hundinn Gizmo sem er með henni í Finnlandi. „Þetta er sirkushundur sem ferðast og er með sitt vegabréf eins og við hin. Hvert sem hann kemur verður hann leikhúshundurinn, bíður þolinmóður þegar við erum að vinna og er hvers manns yndi,“ segir Birta, sem ákvað strax að hann yrði ekki hafður með í sýningum, fengi bara að hafa gaman.

Lucas, kærasti Birtu, er línudansari og vinnur mest í Þýskalandi. „Þegar ég er í fríi frá sýningum ferðast ég til hans og núna er hann hjá mér í þrjár næstu vikur í Finnlandi því hann er ekki að vinna. Vanalega þurfum við að ferðast mikið til að geta hist. Við eigum íbúð í Búrgúndíhéraði í litlum bæ sem heitir Joigny og er einn og hálfan tíma suður af París. Ég held að við höfum bara náð að vera þar í þrjár viku á þessu ári.“

Líkaminn er atvinnutækið

„Það fer rosalega eftir hverjum og einum hversu lengi hann endist í þessum geira. Ég þekki fólk komið yfir sextugt sem er enn að sýna og er í ótrúlega formi. Líkaminn er atvinnutækið okkar og maður þarf að hugsa vel um hann. Ég hugsa um allt sem ég borða og hversu lengi ég sef á nóttunni. Ég fer reglulega til liðskekkjulæknis og hnykkjara, og er mikið í jóga sem heldur líkama og sál gangandi,“ útskýrir Birta.

„En þetta er áhættuatvinnugrein og slysin gera ekki boð á undan sér. Ég hef tvisvar lent í vinnuslysi. Í annað skiptið var ég að hoppa heljarstökk sem tókst ekki nógu vel og þríbraut á mér bakið. Ég endaði á spítala í viku og mátti ekki hreyfa mig, og var svo í bakbelti í einn og hálfan mánuði. Sem betur fer er heilbrigðiskerfið í Frakklandi allt öðruvísi en á Íslandi og þetta kostaði mig ekki krónu,“ segir Birta þakklát.

„Þar að auki fæ ég listamannalaun frá ríkinu. Sýningatímabilið er frá apríl og fram í október, og þá fæ ég borgað fyrir hverja sýningu. En þá mánuði sem við erum ekki að sýna fáum við föst listamannalaun. Ég þarf að sýna 43 sýningar á ári til að uppfylla skilyrðin fyrir listamannalaunin, en ég rúlla því auðveldlega upp.“

Vill koma með sýningu til Íslands

„Mér finnst rosaleg forréttindi að fá að vinna við það sem ég elska mest að gera í heiminum og í þokkabót fá borgað fyrir það,“ segir Birta, sem þrátt fyrir endalaus ferðalög á vegum vinnunnar reynir að skjótast stöku sinnum heim til Íslands.

„Síðustu ár hef ég reynt að koma heim allavega í eina viku á sumrin. En síðasta ár hefur Ísland togað rosalega mikið í mig. Ég kom fjórum sinnum á síðasta ári og þá hjálpa mikið öll lággjaldaflugförin sem eru í boði. Ég finn að ég þarf að koma heim til rækta íslenskuna,“ segir hún.

„Mér þætti rosalega gaman ef ég gæti einhvern tímann komið með sýningu heim til Íslands. Ég veit að félaga mína í Les P'tits Bras langar afskaplega að koma til Íslands,“ svarar Birta spurð hvort við Íslendingar fáum ekki að njóta hæfileika hennar í komandi framtíð.