Jón J. Guðmundsson fæddist 9. mars 1925 í Hafnarfirði. Hann lést á Hrafnistu, Hafnarfirði, 26. september 2016.

Foreldrar Jóns voru Guðmundur Jónasson, verkstjóri í Hafnarfirði, f. 22. maí 1884, d. 11. október 1966, og kona hans Þorgerður Magnúsdóttir, húsmóðir og verkakona í Hafnarfirði, f. 8. febrúar 1893, d. 21. ágúst 1963. Jón var einkasonur Guðmundar og Þorgerðar, af fyrra hjónabandi átti Guðmundur, Jónas Guðmundsson bifreiðastjóra.

Jón giftist 1. nóvember 1947 Stefaníu Jónsdóttur, f. 8. desember 1926, d. 10. apríl 2010. Foreldrar hennar voru Jón Andrésson og Sveinbjörg Kristjánsdóttir. Stefanía og Jón áttu einn son, Guðmund Geir, f. 10 desember 1947, kvæntur Sigríði Björgu Eggertsdóttur, f. 9. desember 1945, d. 10. júní 2012, sambýliskona Ragnheiður Hermannsdóttir, f. 11. janúar 1947. Börn Guðmundur og Sigríðar eru: 1) Jón Eggert, f. 13. nóvember 1967. 2) Jóhannes Geir, f. 21. júlí 1974, kvæntur Pamelu Susan Perez, f. 5. desember 1976. Börn þeirra eru: a) Erik Daníel, f. 2. janúar 2001, b) Lucia Stefanía, f. 16. maí 2003. Fyrir átti Pamela dótturina Madison Alexiu, f. 1. apríl 1996. 3) Björgvin, f. 14. maí 1985.

Jón bjó í Hafnarfirði alla sína ævi, gekk í Flensborgarskólann og lærði síðan rafvirkjun. Árið 1947 stofnaði hann ásamt Þorvaldi Sigurðssyni rafmagnsverkstæði, sem þeir ráku ásamt því að byggja íbúðar- og verslunarhúsnæði til ársins 1975 er hann hóf störf hjá Íslenskum aðalverktökum á Keflavíkurflugvelli. Starfaði hann þar fyrst sem rafvirki en tók síðan við rekstri vöruhúsa félagsins til ársins 2005 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Útför Jóns fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 3. október 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.

Nú er Jón, afi og langafi, búinn að kveðja og kominn til konu sinnar Stefaníu.

Hann talaði alltaf um að vera berdreyminn. Þegar Stefanía dó dreymdi hann að hún hefði komið til hans og sagt honum að hann skyldi ekki syrgja. Hann ætti að vera hjá strákunum aðeins lengur, seinna myndu þau hittast aftur.

Jón var vinnusamur frá unga aldri. Ellefu ára fékk hann að fara til sjós á Júní. Eins og svo margir á undan honum í fjölskyldunni vildi hann verða sjómaður. Mamma hans Þorgerður var ekki á þeirri skoðun. Stefnan breyttist og eftir nám við Flensborgarskólann lærði hann rafvirkjun við Iðnskólann í Hafnarfirði.

Eftir rafvirkjanám stofnaði hann til reksturs með félaga sínum Þorvaldi. Þeir stóðu í ýmsu, svo sem húsgagnagerð, þurrhreinsun og síðast, sem lengst stóð yfir, voru framkvæmdir við íbúðarbyggingar.

Eftir að Þorvaldur féll frá fór Jón til ÍAV og vann þar til starfsloka.

Jón naut þess að vera í góðum félagsskap. Hvort sem það var kór eldri borgara, heiti potturinn í gömlu lauginni eða kaffi á kvöldin með nánustu. Þá leið honum best.

Hann var fljótur til með góða sögu, vísu eða fleyg orð. Hann var einstaklega minnugur á alls kyns hluti eins og nöfn, dagsetningar og fjölskyldutengsl. Það eru fáir Gaflarar sem hann kunni ekki skil á.

Þegar barnabörnin fluttu til Íslands glöddust hjónakornin alveg sérstaklega. Skemmtilegast fannst honum að vera kallaður Gamli afi af þeim litlu. Það nafn hefur haldist í fjölskyldunni.

Gamli afi mun lifa með okkur í minningunni. Við erum þakklát fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman.

Jón Eggert Guðmundsson,

Jóhannes Geir Guðmundsson og fjölskylda, Björgvin Guðmundsson.

Jón Guðmundsson var einn minn allra besti vinur og velunnari í meira en hálfa öld. Ég minnist þess þegar ég, 19 ára hjúkrunarnemi frá Siglufirði, var kynnt fyrir Jóni og konu hans Stefaníu af bróður hennar og unnusta mínum Kristni Jónssyni. Ég man hvað mér fannst Jón myndarlegur maður með hlýtt viðmót og góða nærveru eins og sagt er.

Við Kristinn nutum ómetanlegrar aðstoðar þeirra okkar fyrstu ára í búskaparbaslinu sem hin svokallaða „eftirstríðskynslóð“ þekkti svo vel.

Nonni, eins og við kölluðum hann, var alltaf tilbúinn að hjálpa við hvað sem var. Það var yndislegt að eiga hann að, alltaf jákvæður og gerði gott úr öllu.

Nonni og Stebba voru samrýnd hjón og það var ávallt gott og notalegt að koma til þeirra í heimsókn. Þar voru alltaf höfðinglegar móttökur. Þau pössuðu Siggu fyrir okkur þegar ég vann á næturvöktum á Spítalanum til að vinna mér inn pening fyrir teppum á húsið sem við vorum að byggja þá. Nonni talaði oft um það hvað það hefði verið gaman að hafa Siggu, til dæmis þegar hún fór inn í skáp og söng þriggja ára gömul Guttavísur. Nonni var skemmtilegur maður, alltaf að segja gamansögur af mönnum og málefnum bæjarins. Hann var svo minnugur að ef við þurftum að vita eitthvað um gamla tíma var bara að spyrja Nonna, hann vissi allt.

Nonni var alla tíð framtakssamur maður og ósérhlífinn, hann rak fyrirtæki með Þorvaldi Sigurðssyni, Jón og Laddi, árum saman. Þeir tóku virkan þátt í uppbyggingu í Norðurbænum og byggðu þar margar blokkir, einnig á Sléttahrauni, Krókahrauni, Arnarhrauni og fleiri stöðum í bænum. Eftir að Nonni var hættur að vinna barðist hann ásamt fleirum fyrir því að byggja íbúðir fyrir 60 ára og eldri. Það tók langan tíma en það tókst samt og byggð voru þrjú hús við Herjólfsgötuna með 49 íbúðum sem tekin voru í notkun 2006. Nonni var ötull baráttumaður að koma á aðstöðu fyrir félagsstarf aldraðra í bænum og það voru ófáar stundirnar sem hann innti af hendi til að ná þessum markmiðum. Hann var mjög ánægður þegar félagsstarfið var komið í varanlegt húsnæði í Hraunseli sem gjörbreytti allri aðstöðu.

Fjölskyldan var ætíð í fyrirrúmi hjá Nonna. Mikið og náið samband var á milli þeirra Nonna, Stebbu og einkasonarins Guðmundar Geirs. Það var unun að sjá hvað þau voru góðir vinir og samhent um allt. Og þegar synir Guðmundar Geirs fæddust vafði hann þá umhyggju og styrk sem þeir gleyma örugglega ekki og eins var með barnabörnin. Það varð mikill söknuður hjá öllum þegar Stebba féll frá árið 2010. En vinátta þeirra feðga varð enn nánari.

Það var mikil sorg þegar Kristinn maðurinn minn féll frá langt um aldur fram, en þeir Nonni voru góðir vinir. Nonni og Guðmundur Geir sýndu mér og fjölskyldu minni einstaka alúð og umhyggju á þessum erfiðu tímum og voru boðnir og búnir til hjálpar í öllu. Það viljum við Sigga og Inga þakka sérstaklega.

Nú er komið að leiðarlokum. Ég þakka Nonna hálfrar aldar samfylgd og fölskvalausa vináttu alla tíð.

Okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra, elsku Guðmundur Geir og fjölskylda. Guð styrki ykkur í sorginni.

Gunnhildur, Sigríður

og Inga Valgerður.