Gunnlaugur Árnason, frá Gnýsstöðum á Vatnsnesi, fæddist á Hvammstanga 11. mars árið 1923. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík 14. september 2016.

Foreldrar Gunnlaugs voru Árni Jón Guðmundsson frá Gnýsstöðum, f. 26.7. 1899, d. 16.11. 1974, og Sesilia Gunnlaugsdóttir frá Geitafelli á Vatnsnesi, f. 28.1. 1897, d. 10.3. 1992. Systkini Gunnlaugs voru Guðmundur, f. 14.6. 1927, d. 14.10. 2009, Skúli, f. 24.5. 1931, d. 16.2. 1994, og Sólveig, f. 23.9. 1946.

Gunnlaugur kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Helgu Guðrúnu Berndsen, f. 14.5. 1931, frá Karlsskála á Skagaströnd, 5. október 1974. Fósturdóttir Gunnlaugs var Guðrún Magdalena Einarsdóttir, eiginmaður hennar er Ívar Bjarnason og eiga þau tvö börn, Einar Þór og Helgu Sigríði.

Gunnlaugur ólst upp við sveitastörf og sjómennsku, sem varð ævistarf hans. Hann var ýmist skipstjóri, stýrimaður eða háseti á ýmsum bátum frá Hornafirði, Hrísey, Akranesi og Skagaströnd. Um tíma gerði hann út eigin bát, Svan HU7. Hann var háseti á skipum frá Ríkisskipum á árunum 1974 til ársins 1985 en eftir það starfaði hann í landi hjá Ríkisskipum þar til Ríkisskip voru lögð niður árið 1992. Eftir það starfaði hann við beitningu og fór hann í landróðra þar til hann varð 80 ára.

Úför Gunnlaugs fer fram frá Grensáskirkju í dag, 3. október 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.

Sumt fólk er þannig gert að það heillar mann. Laugi var einn af þeim mönnum. Stór, myndarlegur, góðlegur og hlýr en í senn maður festu og ákveðni. Minningarnar um hann ná aftur til æskuáranna. Árin sem hann leigði hjá foreldrum mínum voru eftirminnileg. Ég, ungur og óreyndur drengur, naut leiðbeiningar og frásagna hans. Hann gaf mér líka leyfi til að vera í herberginu sínu þegar hann var á sjó. Þar voru allar sjóarabækurnar sem ég las af áhuga. Inni í herberginu var líka alltaf sama góða lyktin sem ég tengdi síðan ætíð við, Laugja-ilmurinn af Old Spice.

Seinna þegar Laugi tók saman við Bíbí frænku varð samgangur okkar enn meiri. Ljúft er að minnast allra þeirra stunda. Dvaldi ég hjá þeim þegar ég var við nám, eftir að þau fluttu til Reykjavíkur. Einnig síðar þegar erindi voru sunnan heiða. Á sumrin komu þau norður á Skagaströnd, rétt eins og farfuglarnir, og dvöldu oft langtímum saman. Þá gáfust oftar en ekki tækifæri til að ræða málin, skiptast á fréttum og oftast voru það fréttir af aflabrögðum sem vöktu áhuga hjá Laugja sem og sögur af gamla tímanum.

Eftir að ég eignaðist fjölskyldu fengu börnin að kynnast Laugja. Hann var þeim alla tíð góður vinur, enda einstaklega barngóður og natinn við krakka. Þegar komið var í heimsókn á Háaleitisbrautina voru krakkarnir ekki fyrr komnir inn úr dyrum en að Laugi var farinn að spila Olsen Olsen við þau eða sat með þau í ruggustólnum í stofuhorninu og raulaði gömul lög.

Eftirminnilegar eru líkar ferðirnar á Vatnsnesið þar sem ræturnar lágu. Þar fræddi hann ferðafélagana um lífið á Vatnsnesinu og var auðvelt að átta sig á að æskuárin þar voru góð og mótuðu persónuhans .

Líf Laugja snerist fyrst og fremst um sjómennsku. Hann stundaði sjóinn í yfir 50 ár. Hann var sjómaður af lífi og sál, já góður sjómaður. Á sjómannsferlinum kynntist hann mörgum tegundum báta og veiðiskapar, allt frá árabátum upp í fyrstu skuttogarana. Heimahöfnin var oftast Skagaströnd. Það var gaman að heyra hann segja frá því þegar skuttogaranum Arnari HU-1 var siglt frá Japan til Skagastrandar 1973, för sem líktist ævintýri fyrir unglinginn og hafði og hefur enn ævintýraljóma yfir sér. Sjómannsferlinum lauk hann síðan á strandferðaskipum Ríkisskipa.

Laugi talaði ávallt vel um samferðarmennina sem voru samtíða honum á sjó. Ungu mennirnir sem unnið höfðu með honum hafa margir haft á orði að hann hafi verið góður leiðbeinandi og gætt þeirra sem sinna.

Samband Lauga og Bíbíar einkenndist af hlýju og gagnkvæmri virðingu og voru þau einstaklega samheldin hjón. Því miður var það svo að síðustu árin urðu Laugja erfið í glímu við óvæginn sjúkdóm, alzheimer.

Elsku Bíbí frænka, Guðrún og fjölskylda, innilegar samúðarkveður til ykkar allra.

Með mikilli virðingu, þakklæti og hlýhug kveð ég Laugja okkar.

Adolf H. Berndsen

og fjölskylda.

Fallinn er frá einstaklega góður maður með gullhjarta og góða nærveru. Laugi minn var vel af Guði gerður og alltaf reiðubúinn að hjálpa til og aðstoða. Margar góðar minningar á ég um hann. Fyrstu minningar mínar eru frá þeim tíma er hann leigði herbergi heima hjá foreldrum mínum á Skagaströnd. Ég var þá lítill drengur og þótti mér herbergi hans búa yfir ævintýraljóma. Mér fannst mikil upphefð að koma með honum inn í herbergið hans þar sem hann hafði frá ýmsu að segja og sýna mér. Laugi starfaði alla tíð sem sjómaður, hann var hörkuduglegur og farsæll. Allir þeir sem ég þekki sem höfðu verið á sjó með Laugja hældu honum í hástert. Hann var ungur drengur, innan við fermingaraldur, þegar hann byrjaði á sjó. Á hans farsæla sjómannsferli reri hann á mörgum bátum og skipum. Laugi hélt skrá yfir öll þau skip og báta sem hann réri á, einnig skráði hann nöfn allra sjómanna sem hann starfaði með.

Þegar hann sýndi mér þessa merku bók sína brosti hann breitt og voru margar skemmtilegar sögur sagðar, enda hafði Laugi gott minni og góða frásagnarhæfileika.

Laugi var vel lesinn og uppáhaldsbækur hans tengdust flestar sjó og sjómennsku. Margar góðar minningar á ég með Laugja og Ensa afa á sjó fyrir norðan sem ungur drengur. Alltaf var hann tilbúinn að sýna og kenna manni réttu handtökin, sem ég hef alltaf verið þakklátur fyrir. Laugi var sterkur maður frá náttúrunnar hendi og eru til margar sögur um hraustmennsku hans, en hann sagði aldrei frá sínum aflraunum sjálfur.

Gerði hann lítið úr þessum sögusögnum, enda var sjálfshól ekki til í hans orðabók. Um fimmtugt giftist hann föðursystur minni, Helgu Berndsen. Frænka mín hefði ekki geta verið heppnari með mann og hann með hana. Þau fluttu frá Skagaströnd til Reykjavíkur og stofnuðu þar heimili sitt, sem var hlýtt og snyrtilegt. Maður var og er alltaf velkominn á þeirra gestkvæma heimili. Sérstaklega minnist ég veru minnar hjá þeim á skólaárum mínum í Reykjavík.

Laugja fannst sérstaklega gaman að fara á rúntinn niður á bryggju, minnisstæðar voru ferðir okkar suður með sjó eða upp á Akranes. Eitt var alltaf með í ferð og það var súkkulaði. Laugi var einstaklega barngóður maður og vil ég þakka þér fyrir hversu yndislegur þú varst börnum mínum. Minningin um hjartahlýjan og traustan vin mun lengi lifa.

Hlýjar kveðjur sendi ég Bíbí og fjölskyldu. Hvíl í friði, elsku Laugi.

Hendrik Berndsen

og fjölskylda.