Gunnlaugur Árnason fæddist 11. mars árið 1923. Hann lést 14. september 2016.

Úför Gunnlaugs fór fram 3. október 2016.

Gunnlaugur Árnason var fæddur 1923 og ólst upp í foreldrahúsum á Gnýstöðum á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Hann kynntist strax þeim tvískipta búskap sem þá tíðkaðist víða með ströndinni, þegar búið var bæði til lands og sjávar. Hann tók snemma þátt í þeim störfum sem vinna þurfti, sláturfjárrekstrum á haustin, öðru fjárragi, skepnuhirðingu sem og sjósókn úr heimalendingu, allt eftir árstíðum. Hann fór síðan ungur að heiman til sjós, meðal annars frá Norðfirði þar sem frændi hans, Jakob á Strönd, gerði út. Hann varð fljótt vel að manni og gjaldgengur til hvers sem var, gætinn og ódeigur. Sjómennska varð síðan lífsstarf hans og mörg síðustu sjómannsárin var hann á strandferðaskipum Ríkisskipa.

Ekki fer hjá því að þeir sem stunda sjómennsku áratugum saman komist jafnvel í hann krappan í glímunni við Ægi, en þegar Gunnlaugur, þá kominn yfir áttrætt, var spurður um þess háttar á sólfögrum degi hér syðra, þá vildi hann lítið um það tala og nefndi að sér þætti einna eftirminnilegast frá sjómannsferlinum þegar hann hefði verið á síldarbát á árunum um eða eftir seinna stríð og sótt hefði verið norður fyrir Grímsey um hásumar í góðri tíð. Þá hefði sólin ekki gengið undir, skin hennar gyllt spegilsléttan hafflötinn og fuglinn þagnað um stund um lágnættið.

Gunnlaugur var lengi búsettur á Skagaströnd, þar sem kynni tókust með honum og Helgu Berndsen og settu þau saman heimili, fyrst þar nyrðra en fluttu til Reykjavíkur á áttunda áratugnum.

Í samfélaginu eru góðir nágrannar gulls ígildi. Gunnlaugur og Helga fluttu hér í húsið á Háaleitisbrautinni fyrir talsvert á fjórða áratug síðan og bjuggu hér allt þar til Gunnlaugur veiktist og Helga býr hér enn. Gunnlaugur var góður nágranni, vildi hvers manns vanda leysa, börnum var hann notalegur og þau fundu að honum var óhætt að treysta.

Það er komið haust, laufblöðin falla af trjánum og fjúka til með haustvindunum, dreifa sér um tún, stéttir og bílaplön. Til skamms tíma var Gunnlaugur að eltast við blöðin, safna þeim saman með laufhrífu og kústi og troða ofan í svarta poka. Þetta endurtók hann nánast á hverjum degi þar til síðasta laufblaðið var fallið. Hann var einstaklega natinn við að halda lóðinni hreinni, sópaði stéttir og bílaplön reglulega, fór vel í allar kverkar, allt skyldi vera skínandi hreint. Hann útbjó sér sérstakt áhald sem hann notaði til að krafsa upp grasið og arfann sem tróð sér upp á milli gangstéttahellnanna. Hann var alltaf að þar til að hann þurfti frá að hverfa vegna veikinda. Já, nú er komið haust og laufblöðin leika lausum hala um tún og stéttir, enginn Gunnlaugur til staðar.

Hans er sárt saknað. Við vottum Helgu Berndsen, Guðrúnu og Ívari og börnum þeirra, Einari Þór og Helgu Sigríði, okkar dýpstu samúð.

F.h. núverandi og fyrrverandi íbúa að Háaleitisbraut 17,

Hermann Tönsberg og

Sigurður Kristjánsson.