Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:
Færni handar að færa til betri vegar.
Formaður glöggur sér og nýtir þegar.
Af kvenfólki það sungið er og seggjum.
Sést það líka í hlöðnum bæjarveggjum.
Harpa á Hjarðarfelli á þessa lausn:
Hafa á verki fimir fingur lag.
Formaður sér lag á eftir broti.
Á tyllidögum tekið oft er lag.
Torflag enn má sjá í veggjabroti.
Þetta er svar Guðrúnar Bjarnadóttur:
Oft er farsælt að
stoppa laghent í lopavettling,
lagi beita, sér völd að tryggja,
syngja lögin (í kór) um kettling
og kofaveggi í lögum byggja.
Árni Blöndal leysir gátuna þannig:
Með lagi er best að bæta orðið tjón,
brot í öldulögum formenn nýta,
lögin sungin löngum hér um Frón,
lög í hlöðnum görðum víða líta.
Helgi Seljan segir fátt betra til upplyftingar andans úr andleysinu venjulega en að fást við gátur hvers konar. Ráðningin er hér:
Lag á mörgu lagnir hafa,
lag á sjónum dýrmætt er.
Lag er sungið létt án vafa,
lag af torfi í vegginn fer.
Guðmundur skýrir gátuna þannig:
Lag er færni gallaðan grip að bæta.
Glöggur formaður lagi þarf að sæta.
Lag af konum sungið er og seggjum.
Sjá má lag í hlöðnum bæjarveggjum.
Og lætur limru fylgja:
Er Vernharður vörður laga
fékk Valgerðar ofan af Skaga,
að orði varð Jóni,
sem er örlagaróni.
„Hver hefur sinn djöful að draga.“
Og að lokum er ný gáta eftir Guðmund:
Þykir vera gripur góður.
Griðastaður elskendanna.
Þar eru kjörnar kjaftaskjóður.
Kemur þar saman fjöldi manna.
Ég greip Blöndu úr bókaskápnum og við mér blasti þetta:
„Svo er sagt að eitt sinn hafi Hallgrímur (læknir) verið spurður að heiti, annaðhvort á bæ eða á förnum vegi, og hann þá svarað:
Mitt er heiti Hallgrímur,
hjörva beitir Jónssonur,
um allar sveitir alþekktur,
að því leyti hvimleiður.“
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is