Magnús Árnason fæddist 27. maí 1952. Hann lést 27. ágúst 2016. Útför Magnúsar fór fram 5. september 2016.
Sjaldan hef ég fengið eitraða ör í hjartað, en það gerðist 27. ágúst 2016. Mér brá þá verulega við að sjá, að þessi frændi minn var látinn. Var þetta virkilega svo? Jú, myndin tók af allan vafa.
Við höfðum hist allnokkrum sinnum á meðferðarstofu á SAk, sem ég kýs að kalla númer eitt. Báðir þurftum við á góðum stól að halda, en ég þekkti ekki þennan sköllótta mann í fyrsta skiptið, sem sat þarna á móti mér. Hann þekkti aftur á móti mig og greindi mér frá sér. Árni faðir hans og ég vorum þremenningar. Hann mundi ég vel, góðan gæðadreng og ég sá alltaf betur og betur hve mjög Magnús líktist föður sínum. Þegar ég var að fara fyrstu læknisferðir mínar til Siglufjarðar fyrir löngu síðan, settu foreldrar Magnúsar mig til gistingar í stofu sinni. Þetta sá ég allt þessi skipti, sem við frændi sátum saman á stofu eitt á SAk, báðir með nál í handlegg, þiggjandi eitur, sem átti að drepa krabbann. Það dugði Magnúsi greinilega ekki. Þess vegna brá mér ótrúlega, eins og segir í annarri málsgrein. Mér þótti minningargrein dóttur Magnúsar falleg og ég varð hrærður og sá í henni bæði afann og pabbann.
Hef þetta ekki lengra, en við sjáumst, frændi, innan tíðar.
Farðu í friði Guðs.
Eiríkur Páll Sveinsson.