Skurðtól 772 magahjáveituaðgerðir voru framkvæmdar 2001-2015.
Skurðtól 772 magahjáveituaðgerðir voru framkvæmdar 2001-2015. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is 85% þeirra sjúklinga sem farið hafa í magahjáveituaðgerðir á Íslandi hafa náð fullnægjandi þyngdartapi samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem kynnt hefur verið í Læknablaðinu.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

85% þeirra sjúklinga sem farið hafa í magahjáveituaðgerðir á Íslandi hafa náð fullnægjandi þyngdartapi samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem kynnt hefur verið í Læknablaðinu. „Það er afar mikilvægt að fá niðurstöður úr þessari rannsókn, því með þessu getum við sýnt okkar sjúklingum fram á það hve hátt hlutfall þeirra sem fara í aðgerðina fá viðunandi árangur,“ segir Rósamunda Þórarinsdóttir, 1. höfundur að rannsókninni sem hún framkvæmdi ásamt kærasta sínum, Vilhjálmi Pálmasyni, en undir leiðsögn Björns Geirs Leifssonar og Hjartar Gíslasonar, skurðlækna á LSH. Rósamunda er á fjórða ári í læknanámi við HÍ en Vilhjálmur er á 5. ári.

Konur í miklum meirihluta

Rannsóknin tók til 772 magahjáveituaðgerða sem framkvæmdar voru á árunum 2001-2015 á Íslandi. Byggjast niðurstöðurnar á eftirfylgni með árangri 702 sjúklinga, eða 91% þeirra sem fóru í aðgerð á tímabilinu. Ásættanlegt þyngdartap var skilgreint sem svo að missa yfir 50% af umframþynd, þ.e. 50% af þeirri þyngd sem er yfir 25 í BMI-þyngdarstuðul eða að komast undir 33 í BMI-stuðul. Stuðullinn er í grófum dráttum reiknaður sem þyngd miðað við hæð viðkomandi.

Fram kemur að meðalaldur þeirra sem fóru í slíkar aðgerðir er 41 ár en athygli vekur að konur fóru í aðgerð í 83% tilfella. Rósamunda segir að ekki sé gott fyrir sig að geta sér til um ástæður þess hví konur eru í svo miklum meirihluta þeirra sem fara í aðgerð, slíkt gæti verið viðfangsefni annarrar rannsóknar.

Að meðaltali voru sjúklingar með 2,8 fylgisjúkdóma offitu fyrir aðgerð en fjöldi sjúkdóma er tengdur offitu með einum eða öðrum hætti. Algengir fylgisjúkdómar eru t.a.m. sykursýki af tegund tvö, of hár blóðþrýstingur og blóðfituraskanir. Til að mynda voru 80 þeirra sjúklinga sem fóru í aðgeðina með sykursýki af tegund 2. 71% þeirra fór í fullt sjúkdómshlé eftir aðgerð. Rúmlega þriðjungur sjúklinga með of háan blóðþrýsting eða blóðfituraskanir varð lyfjalaus eftir aðgerð.

Fram kemur í greininni að sýnt hafi verið fram á að offituaðgerðir séu eina meðferðarúrræðið sem stuðlar að langvarandi þyngdartapi, bættu ástandi fylgisjúkdóma og betri lifun sjúklinga með sjúklega offitu. Þá kemur fram að á Íslandi sé nú um fimmtungur fullorðinna of feitur.